Svona er að vera siðprúð

Svona er að vera siðprúð
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)

Það vildi enginn piltur mig faðma forðum daga,
þeim fannst ég víst svo siðprúð en það er önnur saga.
En þroska hef ég öðlast með ári hverju nýju,
þau orðin verða bráðlega næstum fjörutíu.

viðlag
Ekkert skil ég í því
þeim ósköpum í,
að ég skuli ógefin vera.

Og þessar mínar hendur þær eru undraslyngar
við allrahanda krosssaum og bróderingar,
og ég kann líka sauða- og kúskinnsskó að skera,
og skó á stórar býfur ég fegin vildi gera.

viðlag

Og sá sem fengist til þess að helga mér sitt hjarta,
um heimanmund minn ætti varla’ að þurfa neitt að kvarta,
því ég á heilar raðir af silfurkaffikönnum
og kristalsglös frá Danmörku og mávastell í hrönnum

viðlag

Ég á líka mikið safn bæði’ af kjólum og af kápum,
sem kyrfilega geymt ég hef í mahóníuskápum,
þær flíkur hafa aldur sin ágætlega borið,
ég ýmsar þeirra keypti mér þjóðhátíðarvorið.

viðlag

Já ef einhver fengist til þess að búa hérna hjá mér
í húsi mínu góða og ögn af blíðu tjá mér,
hann kvíða þyrfti upp frá því aldrei neinum raunum
en alltaf verða stríðalinn á saltkjöti og baunum.

viðlag

[m.a. á plötunni Þrjú á palli – Við höldum til hafs á ný]