Það vorar

(Lag / texti: Þórarinn Guðmundsson / Jón Trausti (Guðmundur Magnússon))

Það vorar, það vorar um fjörur og fjöll
og fagnaðarsvip hefur náttúran öll.
Nú birtist þú, móðir, í brosandi mynd
og baðar í geislum hvern einasta tind.

Það vorar af gullöld af vonanna öld,
með vænlegra spádóma glitofin tjöld
og geislarnir fegra með framtíðarglans
hvern fágaðan gimstein úr sögu vors lands.

Það vorar af þroska og þróttmeiri tíð,
sem þorir að byrja og heyja sín stríð,
sem spyr ei hvað var eða víðast hver er,
en vasklega merki þess komandi ber.

[af plötunni Tryggvi Tryggvason og félagar – Tryggvi Tryggvason og félagar I]