Víkin mín

Víkin mín (Blessuð sértu sveitin mín)
(Lag / texti: Bjarni Þorsteinsson / Ragnar Þorsteinsson)

Vinalega víkin mín
varin milli tveggja hlíða.
Fögur er þín fjalla sýn,
falleg er hún brekkan þín,
glitrar dögg er Glóey skín,
gróðursælt í dalnum fríða.
Vinalega víkin mín
varin milli tveggja hlíða.

Unnar svið á eina hlið,
öldur ljósar sleikja sandinn.
Brotna dranga bylgjur við,
bifast ei við sævar nið.
Standa vörð um Víkurfrið
voldug tröll með hamrastandinn.
Unnarsvið á eina hlið,
öldur ljósar sleikja sandinn.

Hamragirðing há með stall
heldur vörð um grónar lendur.
Gróðursæl er gnípa, fjall,
glatt þar ómar sigmannskall,
sjónum hvessir fimmtugt fall,
fuglaver á báðar hendur.
Hamragirðing há með stall
heldur vörð um grónar lendur.

Yfir dalnum verndarvætt
vaki alla daga og nætur.
Verði allt það góða glætt,
gróðri hlúð og endurbætt.
Aldrei verði illu stætt,
eflist trú og festi rætur.
Yfir dalnum verndarvætt
vaki alla daga og nætur.

[óútgefið]