Flowers (1967-69)

Fyrsta útgáfa Flowers

Hljómsveitin Flowers var um tveggja ára skeið ein allra vinsælasta sveit landsins og skákaði þá veldi Hljóma sem höfðu svo gott sem einokað markaðinn á Íslandi til nokkurra ára. Sögu sveitanna tveggja lauk með sameiningu þeirra og stofnun súpergrúppunnar Trúbrots og á sama tíma birtist önnur sveit, Ævintýri sem var að mestu skipuð þeim Flowers-liðum sem ekki fengu pláss á Trúbrotsfleyinu.

Flowers var stofnuð síðsumars 1967 og kom kjarni hennar úr unglingasveitinni Toxic en sú sveit hafði þá starfað í um þrjú ár og vakið nokkra athygli fyrir ferskleika, m.a. hitað upp fyrir Brian Poole & the Tremeloes sem höfðu heimsótt landið. Það voru þeir Arnar Sigurbjörnsson gítarleikari, Jónas R. Jónsson söngvari og Rafn Haraldsson trommuleikari sem komu úr þeirri sveit en bræðurnir Karl J. Sighvatsson orgelleikari úr Dátum og Sigurjón Sighvatsson bassaleikari úr Mods skipuðu sveitina einnig.

Flowers vakti strax athygli fyrir nafnið sem þótti töff og þegar hún kom fram fyrst í byrjun september 1967 í Tjarnarbúð og Silfurtunglinu höfðu þeir látið skreyta salina með blómum og í Silfurtunglinu var nafn sveitarinnar myndað með rósum ofan við barinn, þá fengu kvenkyns gestir blóm afhend við innganginn svo sveitin var fljót að afla sér fylgis meðal kvenþjóðarinnar að minnsta kosti, á þessum tíma hippa og blóma.

Þeir félagar spiluðu strax mikið um haustið, aðallega þó á höfuðborgarsvæðinu, og urðu fljótt vinsælir hjá ungu kynslóðinni. Strax í nóvember urðu breytingar á skipan sveitarinnar þegar Gunnar Jökull Hákonarson sem þá hafði verið í London um tíma og leikið með hljómsveitinni Syn, kom heim til Íslands – búinn að gefast upp á harkinu ytra, og tók við af Rafni á trommunum.

Flowers hafði þarna strax skipað sér meðal allra vinsælustu hljómsveita landsins, lék m.a. á risadansleik í Laugardalshöllinni á vegum Skíðasambands Íslands á nýjársdagskvöld 1968, en ein sveit bar um þær mundir Ægishjálm yfir aðrar á landinu og hafði gert um tíma, það voru Hljómar frá Keflavík sem voru einmitt á hátindi ferils síns um það leyti og sendu frá sér breiðskífur 1967 og 68. Flowers kom þó líklega þar á eftir hvað vinsældir snertir, varð í uppgjöri Lesbókar Morgunblaðsins í upphafi árs 1968 í öðru sæti í vinsældakosningu á eftir Hljómum og flestir meðlimir sveitarinnar urðu í öðru sæti síns flokks á eftir Hljóma-meðlimum nema Karl orgelleikari sem var kjörinn sá besti í sínum flokki. Og þetta var án þess að Flowers hefði sent frá sér eina einustu smáskífu á meðan Hljómar höfðu gefið út breiðskífu fyrir jólin sem innihélt vinsæl lög eins og Heyrðu mig góða, Sveitapiltsins draumur, Þú og ég, og Æsandi fögur.

Flowers hélt sínu striki og spilaði mikið á dansleikjum næstu mánuðina og um vorið 1968 lék sveitin m.a. á styrktartónleikum í Glaumbæ þar sem þeir komu fram ásamt vinsælustu sveitum landsins og svo á hátíðinni Vettvangi unga fólksins sem var eins konar vinsældakeppni hljómsveita og á sama tíma fegurðarsamkeppni, þar lentu þeir aftur í öðru sæti á eftir Hljómum.

Flowers

Um sumarið fóru þeir Flowers-liðar að vinna að undirbúningi sinnar fyrstu smáskífu samhliða almennri spilamennsku og var gefið út að sveitin myndi þá bæði vera með frumsamið efni og ábreiður á henni. Enn var þó óljóst hverjir myndu gefa plötuna út og annað atriði varð einnig til að tefja ferlið en þá höfðu Hljómar fengið einhvers konar óformlegt boð um að fara til Ameríku í september, spila þar og fá jafnvel plötusamning, þeim fannst sjálfum að sveitin væri ekki alveg nógu vel mönnuð og véluðu Gunnar Jökul trommara úr Flowers og Shady Owens söngkonu Óðmanna yfir í Hljóma. Það eitt og sér hefði átt að duga til að gera útaf við Flowers og Óðmenn en þegar í ljós kom að enginn fótur var fyrir fyrirhugaðri Bandaríkjaför sveitarinnar var hætt við allt saman enda var þarna einungis um að ræða bandarískan hermann á leið heim vestur um haf úr herþjónustu á Vellinum sem hafði spilað sig sem eins konar umboðsmann og Hljómar bitið á agnið en ekkert var svo á bak við það. En skaðinn var skeður, ólga innan Flowers varð nokkur um tíma vegna málsins og jafnframt ólga milli sveitanna tveggja (Flowers og Hljóma), Óðmenn lifðu þetta ekki af og Shady gekk til liðs við Hljóma. Óðmenn áttu eftir að vakna aftur síðar til lífsins, mikið breytt.

Menn gátu því aftur farið að snúa sér að og einbeita sér að spilamennsku og plötuútgáfumálum, sveitin lék á stórri útihátíð í Þórsmörk um verslunarmannahelgina 1968 og um miðjan október fóru þeir félagar til London á vegum Tóna-útgáfunnar sem þá hafði nýlega verið stofnuð, og tóku upp fjögur lög í De Lane LEA Studios, í þeirri ferð spilaði sveitin í að minnsta kosti einum klúbbi og fengu þar ágætis viðtökur.

Flowers

Bretarnir voru fljótir að vinna og aðeins rétt um mánuði síðar var platan komin á markað á Íslandi. Þrjú af lögunum fjórum voru frumsamin en fjórða lagið var ábreiða af laginu Think sem Aretha Franklin hafði gert vinsælt skömmu áður, það var Þorsteinn Eggertsson sem var fenginn til að semja íslenskan texta við það og sú saga er fræg að til þess hafi hann verið lokaður ásamt viskíflösku inni á skemmtistaðnum Las Vegas og komið svo út með afraksturinn – svartfullur. Í plötudómunum í kjölfarið var honum hins vegar ekki vandaðar kveðjurnar af siðavöndum poppskríbentum dagblaða þess tíma og orð eins og „ósmekklegt“ og „óprenthæft“ komu fyrir í gagnrýninni, það sem helst fór fyrir brjóstið á blaðamönnunum voru hendingarnar: Slappaðu‘ af – ef þú vilt ég lifi þetta af / þú skalt reyna‘ að halda kjafti og slappa svolítið af. Þar fyrir utan þótti textaframburður Jónasar afar óskýr og vart skiljanlegur og fékk hann mjög neikvæða krítik í því lagi. Það breytir því ekki að lagið varð gríðarlega vinsælt og hefur síðan verið klassískt í bítlalagaflóru Íslendinga ásamt smellinum Glugganum sem Rúnar Gunnarsson hafði látið sveitinni í té fyrir plötuna. Hin lögin tvö voru Andvaka (eftir Karl og Arnar) og Blómið sem var instrumental lag eftir Karl þar sem Jónas lék á flautu við píanóundirleik Karls, fyrrnefnda lagið heyrist enn stöku sinnum spilað í ljósvakamiðlum. Þrátt fyrir neikvæða umfjöllun um Slappaðu af fékk platan almennt góða dóma í blöðunum, mjög góða í Morgunblaðinu, Lesbók Morgunblaðsins, Tímanum og Vikunni og þokkalega í Alþýðublaðinu. Með plötunni fylgdi textablað sem þá var nýlunda með smáskífu hér á landi, hún seldist ágætlega eða í um 2000 eintökum en spyrja má hvort hún hefði selst enn betur ef SG-hljómplötur hefðu komið að útgáfu hennar og dreifingu.

Strax í viðtölum eftir útgáfu plötunnar fóru menn að tala um útgáfu breiðskífu og undirbúningur hófst fljótlega fyrir það. Sveitin fylgdi plötunni eftir um haustið með spilamennsku en ennþá var ólga innan sveitarinnar, um sumarið hafði það verið tengt Ameríku-ævintýri Hljóma en nú var það hlutverk Jónasar í sveitinni en hann hafði fengið sinn skerf af gagnrýninni fyrir sönginn í Slappaðu af, almennt var þó talað um hann sem frábæran frontmann, líflegan á sviði og þess háttar.

Í kringum jól og áramót veiktist Jónas af einhverri kvefpest og leysti Björgvin Halldórsson hann af í nokkur skipti en Björgvin var þarna sautján ára gamall Hafnfirðingur sem þá hafði verið að syngja með hljómsveitinni Bendix. Jónas kom aftur inn fljótlega og var með sveitinni þegar hún kom fram í sjónvarpsþætti í janúar 1969 en það var í eina skiptið sem Flowers kom fram í sjónvarpi.

Flowers að húsabaki

Stóru fréttirnar komu svo í byrjun febrúar en þá bárust þær fréttir að Jónas hefði verið rekinn úr Flowers og Björgvin tekið við söngvarahlutverkinu af honum, aldrei kom nákvæmlega fram hvað olli þeim brottrekstri nema að hluti ástæðunnar hefði verið gagnrýnin sem hann fékk í blöðunum, á móti sakaði Jónas aðra meðlimi sveitarinnar um áhugaleysi og drykkjuskap. Jónas vildi halda Flowers-nafninu enda ætti hann það en svo fór að lokum að sveitin hélt nafni sínu án eftirmála, hún var þó auglýst næstu misserin undir nafninu Flowers ´69. Sigurjón bassaleikari hætti einnig um þetta leyti en hann hafði ákveðið það nokkrum mánuðum fyrr og voru engin leiðindi í kringum það en hans sæti tók Jóhann Kristinsson sem hafði þá um tíma leikið með hljómsveitinni Opus 4.

Þannig skipuð starfaði Flowers þar til yfir lauk, Karl orgelleikari og Arnar gítarleikari voru nú einir eftir af upprunalega bandinu en aðrir voru Gunnar Jökull á trommur, Jóhann á bassa og Björgvin söngvari. Næst komst sveitin reyndar á síður blaðanna þegar Björgvin söngvari varð fyrir því að fá flösku í hausinn á dansleik í Vestmannaeyjum, þar sprakk fyrir og þurfti hann að fá aðhlynningu og voru saumuð tíu spor í höfuðið á honum. Reyndar kom fram í fréttaflutningi að þar hefði ósáttur Reykvíkingur verið að verki og þá má spyrja sem svo hvort brottrekstur Jónasar hafi þar eitthvað átt hlut að máli.

Sveitin hélt sínu striki og lék sem fyrr á dansleikjum og tónleikum, t.d. kom sveitin fram á tónleikum í Austurbæjarbíói til styrktar Biafra-söfnuninni sem og á tónleikum tengdum Vettvangi æskunnar þar sem sveitin var að þessu sinni jöfn Hljómum í efsta sætinu, þar gilti úrskurður dómnefndar en áður höfðu atkvæðaseðlar gesta ráðið úrslitum á sama vettvangi. Til stóð að sigurvegarinn myndi spila á popphátíð í Svíþjóð í kjölfarið en Hljómar höfðu leikið þar árið á undan, um svipað leyti bauðst Flowers að koma fram í breskum sjónvarpsþætti sem rímaði ágætlega við fyrirætlanir sveitarinnar því fyrir dyrum stóð að taka upp tólf laga breiðskífu í London og hafði undirbúningur fyrir það staðið um tíma, af því varð þó aldrei eins og komið verður fljótlega að.

Á tónleikunum Vettvangi æskunnar flutti Flowers sína útgáfu af Pílagrímakórnum úr Tannhauser eftir Wagner en Karl orgelleikari hafði útsett það fyrir sveitina, á þeim tíma var svolítið í tísku hjá bítla- og hippasveitum að „poppa“ upp klassísk verk gömlu tónskáldanna og mæltist það yfirleitt vel fyrir hjá unga fólkinu en öðru máli gegndi hjá Ríkissjónvarpinu þegar kom að því að flytja skyldi verkið þar. Jón Þórarinsson tónskáld sem þá gegndi stöðu dagskrárstjóra hjá Ríkisútvarpinu aftók með öllu að verkið yrði flutt með þessum hætti og talaði um afskræmingu og misþyrmingu í því samhengi, svo ekkert varð úr flutningnum þrátt fyrir að búið væri að taka það upp.

Arnar gítarleikari hafði verið við nám og var búinn að gefa það út að hann myndi líklega hætta með sveitinni um haustið (væntanlega eftir plötuupptökurnar) til að geta sinnt náminu að fullum krafti, hinir voru ekki farnir að leita í kringum sig eftir nýjum gítarleikara og þess þurfti ekki því að þann 22. maí bárust þær stórfregnir úr poppbransanum að Flowers og Hljómar væru í þann mund að sameinast í súpergrúppu sem myndi taka til starfa um sumarið. Þar með var öllum fyrirætlunum um Lundúnaferð, plötuupptöku og -útgáfu ýtt til hliðar því sveitin myndi hætta störfum.

Síðast útgáfa Flowers

Eftir einkasamkvæmi sem Flowers og Hljómar höfðu spilað á fyrr um vorið hafði hugmyndin komið upp milli forkólfa sveitanna og úr varð að Karl Sighvats orgelleikari og Gunnar Jökull trommuleikari úr Flowers og Gunnar Þórðar gítarleikari, Rúnar Júl bassaleikari og Shady Owens úr Hljómum myndi skipa hina nýju sveit sem myndi taka til starfa í júní. Heilmikil umræða skapaðist eðlilega meðal almennings og skiptist fólk í fylkingar eftir því hvort það stóð með hinni nýju sveit eða þeim sem ýtt var til hliðar úr hljómsveitunum tveimur, þá virtist sem allur ágreiningurinn vegna Ameríkufarar Hljóma sumarið á undan væri nú gleymdur og grafinn.

Flowers spilaði áfram næstu vikurnar og kom fram í síðasta skipti opinberlega í lok júní og fáeinum dögum síðar – í byrjun júlí, kom hin nýja sveit fyrst fram undir nafninu Trúbrot í Sigtúni við Austurvöll (síðar NASA) og hélt í kjölfarið utan til Bandaríkjanna til að leika þar í nokkrum klúbbum. „Afgangsmeðlimirnir“ úr Flowers sátu þó ekki auðum höndum því að aðeins viku eftir að Trúbrot kom fram í fyrsta skipti birtist ný hljómsveit, Ævintýri sem þeir Björgvin söngvari, Arnar gítarleikari (sem hætti við að hætta) og Sigurjón fyrrverandi bassaleikari Flowers skipuðu ásamt tveimur öðrum. Sú sveit átti eftir að gera góða hluti og skáka jafnvel hinni nýju Trúbrot. Björgvin sendi svo frá sér tveggja laga smáskífu um haustið og varð í kjölfarið stórstjarna í íslensku tónlistarlífi.

Þess má svo geta að lokakaflinn úr Pílagrímakórnum úr Tannhauser eftir Wagner sem Flowers hafði spreytt sig á kom síðan út á Trúbrotsplötu um haustið undir nafninu Elskaðu náungann en Karl hafði útsett það sem fyrr segir, um svipað leyti kom sama lag út á plötu Ævintýri undir nafninu Frelsarinn, útsett af Þóri Baldurssyni – báðar útgáfurnar voru bannaðar í Ríkisútvarpinu eins og vænta mátti.

Af lögum Flowers, Glugganum og Slappaðu af er það að segja að þau hafa síðan 1968 komið út á fjölda safnplatna í gegnum tíðina og einnig í meðförum annarra flytjenda, og hafa bæði lögin fyrir löngu síðan orðið sígild í íslenskri tónlistarsögu.

Efni á plötum