Afmælisbörn 19. janúar 2021

Sigurður Reynir Pétursson

Í dag eru fjögur afmælisbörn á lista Glatkistunnar, þau eru eftirfarandi:

Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) er sjötíu og eins árs gamall í dag. Hann hefur vægast sagt komið víða við á sínum ferli enda fjölhæfur með afbrigðum, spilar á flest hljóðfæri, útsetur og semur tónlist. Framan af var hann í hljómsveitum eins og Náttúru, bjó síðar í Vestmannaeyjum þar sem hann stjórnaði kórum og kenndi tónlist, en eftir að hann eignaðist hljóðverið Stemmu varð það hans aðalstarf. Diddi hefur sérhæft sig í upptökum á kóratónlist og hefur tekið upp hundruðir slíkra platna.

Óttar Felix Hauksson, sem á sínum tíma var talað um sem bítlaaðdáanda númer eitt á Íslandi er líkt og Diddi fiðla, sjötíu og eins árs á þessum degi. Hann lék með sveitum eins og Geislum, Pops og Sonet á árum áður, gerðist umboðsmaður hljómsveita og tónleikahaldari, síðar útgefandi þegar hann stofnaði Sonet útgáfuna. Á síðari árum hefur Óttar Felix starfrækt hljómsveitir eins og Gullkistuna og Specials, auk Pops.

Norðfirðingurinn Guðjón Birgir Jóhannsson hljómborðsleikari Out loud og hljóðmaður hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands  er þrjátíu og sex ára gamall í dag.

Sigurður Reynir Pétursson (1921-2007) fyrrverandi framkvæmdstjóri STEFs hefði einnig átt afmæli á þessum degi. Hann gegndi stöðu framkvæmdastjórans í tuttugu ár, var einnig lögfræðingur samtakanna og FÍH um árabil auk þess að vera framkvæmdastjóri Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda um tíma.

Vissir þú að Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld, Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanóleikari og Sigríður Ragnarsdóttir sem var lengi skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði, eru systkini?