
Flintstones
Hljómsveitin Flintstones starfaði á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1989-90 og lék víða á tónleikum ásamt fleiri sveitum s.s. Rykkrokk og á porttónleikum hjá Hinu húsinu, sveitin lék hipparokk í anda Led Zeppelin og vakti nokkra athygli fyrir tónlist sína.
Sveitin hafði upphaflega verið stofnuð 1987, fékk nafnið Titanic ári síðar og keppti vorið 1989 undir því nafni í Músíktilraunum en þegar þeir komust að því að önnur sveit gekk undir því nafni var heiti hennar breytt í Flintstones. Sigurjón Axelsson gítarleikari og söngvari, Páll Úlfar Júliusson trommuleikari, Kári [?] bassaleikari og Eyvindur Sólnes söngvari höfðu verið upphaflegir meðlimir sveitarinnar en þegar Kári bassaleikari fluttist erlendis tók Sigurður Geirdal Ragnarsson (Silli Geirdal) við hlutverki hans, Eyvindur mun hafa hætt í sveitinni nokkru eftir það og þá voru þeir orðnir að tríói.
Þegar Flintstones hætti störfum 1990 stofnuðu þeir Sigurjón og Sigurður ásamt Bjarka Kaikumo Péturssyni hljómsveitina Lipstick lovers.














































