
Hljómsveitin Flipp
Hljómsveit að nafni Flipp var starfandi á Bíldudal sumarið 1987 og hugsanlega lengur en sveitin var þá skipuð unglingum úr þorpinu.
Flipp var stofnuð um vorið 1987 og lék töluvert í heimahéraði um sumarið, meðal annars í pásum á dansleikjum Græna bílsins hans Garðars, en einnig tók hún þátt í hljómsveitakeppni sem haldin var um verslunarmannahelgina í Skeljavík á Ströndum það sama sumar og hafnaði þar í öðru sæti.
Meðlimir sveitarinnar voru þeir Elfar Logi Hannesson söngvari, Benedikt Páll Jónsson hljómborðsleikari, Hallgrímur Aron Hannesson gítarleikari (sem síðar hóf sólóferil undir nafninu HAH), Kristinn Ásgeirsson trommuleikari og Svavar Sigþórsson bassaleikari. Þegar sveitin lék í Skeljavík um verslunarmannahelgina áttu þeir Kristinn trommuleikari og Svavar bassaleikari reyndar ekki heimangengt og leystu þeir Hjalti Jónsson og Bjarni Þór Sigurðsson (úr Græna bílnum hans Garðars) þá félaga af á trommur og bassa. Flipp mun hafa leikið frumsamið efni eftir Ómar Óskarsson (Pelican o.fl.) í Skeljavík en hann var þá fósturfaðir eins meðlims sveitarinnar.
Þeir Flipp-félagar voru það ungir að árum að undanþágu þurfti fyrir þá svo þeir gætu leikið á dansleikjum, og fékkst slíkt leyfi hjá sýslumanni – einhverju sinni þurfti þó að smygla yngsta meðlimi sveitarinnar inn bakdyramegin þegar sveitin lék í Baldurshaga á Bíldudal.
Flipp starfaði sem fyrr segir um sumarið og fram á haust en þegar meðlimir hennar fóru í skóla utan heimabyggðar lagðist sveitin í dvala, ekki liggur fyrir hvort hún starfaði aftur síðar.














































