Fleyja sjer (1997)

Hljómsveitin Fleyja sjer (færeyska) starfaði innan Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi haustið 1997 en þá var sveitin meðal keppenda í tónlistarkeppninni Frostrokki sem haldin var innan veggja skólans. Fleyja sjer hafnaði í þriðja sæti keppninnar og átti í framhaldinu tvö lög á safnplötunni Frostrokk 1997: tónlistarkeppni NFVA, sem kom út vorið 1998.

Meðlimir sveitarinnar voru þau Sonja Lind Eyglóardóttir söngkona, Ívar Örn Benediktsson gítarleikari, Guðmundur Þór Valsson bassaleikari og Hákon Baldur Hafsteinsson trommuleikari en auk þess spilaði Snæbjörn Sigurðarson hljómborðsleikari með þeim á Frostrokks-plötunni.

Ekki liggur fyrir hvort sveitin var sérstaklega sett saman fyrir Frostrokk eða hvort hún starfaði um lengri tíma á Akranesi.