Senjórítukórinn (1995-)

Senjórítukórinn

Innan Kvennakórs Reykjavíkur starfaði lengi kór eldri kvenna undir nafninu Senjórítukór Kvennakórs Reykjavíkur, síðar fékk hann nafnið Senjórítukórinn, varð sjálfstæð eining og starfar enn.

Kvennakór Reykjavíkur hafði verið starfandi frá árinu 1993 og þegar nokkrar kvennanna voru komnar á þann aldur haustið 1995 að raddir þeirra voru að breytast og hentuðu ekki lengur kórnum stofnaði Margrét J. Pálmadóttir stjórnandi kórsins nýjan kór undir nafninu Senjórítukór Kvennakórs Reykjavíkur sem einnig gekk undir nafninu Senjórítukórinn. Rut L. Magnússon var fyrsti stjórnandi kórsins en hann kom í fyrsta sinn fram opinberlega vorið 1996 og söng oft með Kvennakór Reykjavíkur og svo öðrum kórum sem stofnaðir voru innan þess kórs, en einnig hélt kórinn sjálfstæða tónleika og söng t.a.m. töluvert á sjúkrastofnunum og þess konar stöðum en hefur reyndar farið víða og jafnvel erlendis í söng- og skemmtiferðir.

Í byrjun var kórinn skipaður um tuttugu og fimm konum en eftir því sem árin hafa liðið hefur fjölgað töluvert í honum, um aldamótin voru um fimmtíu konur í honum og tíu árum síðar voru þær um sjötíu. Senjóríturnar hafa alltaf haft söngdagskrá sína í léttari kantinum og höfðar því til margra, og frá árinu 2015 hefur kórinn starfað sem sjálfstæð utan Kvennakórs Reykjavíkur og hefur síðustu árin gengið undir nafninu Senjórítukórinn.

Rut stjórnaði kórnum til ársins 2001 en þá tók Sigrún Þorgeirsdóttir við söngstjórninni og stýrði honum til 2007 þegar Ágota Joó tók við en hún er enn í dag stjórnandi Senjórítukórsins.