Hljómsveitin Silver Cock starfaði um nokkurra mánaða skeið á síðari hluta ársins 2004 og lék þá á fáeinum tónleikum, sveitin hljóðritaði svo nokkur lög áður en ný sveit, Ask the slave var stofnuð upp úr henni, þó með breyttri liðsskipan.
Tilurð sveitarinnar var með þeim hætti að Ragnar Ólafsson söngvari og Elvar Atli Ævarsson gítarleikari sem höfðu kynnst eftir stutta viðveru í ballhljómsveitinni Amper um vorið 2004 ákváðu að starfa áfram saman eftir að hafa fundið sameiginlega snertifleti í tónlistinni. Elvar reyndi að fá Ragnar í pönksveitina Nóvember sem hann hafði þá starfrækt ásamt Gunnari Frey Hilmarssyni um tíma, en úr varð að þeir þrír ákváðu að stofna nýja sveit sem svo hlaut nafnið Silver Cock. Ragnar fékk Daníel Auðunsson inn í sveitina sem bassaleikara og Daníel útvegaði svo trommuleikara, Símon Rúnarsson (Han Solo o.fl.). Daníel staldraði reyndar stutt í sveitinni og þá færði Gunnar sig yfir á bassann. Þess má svo geta að Ragnar og Daníel áttu síðar eftir að starfa saman í hljómsveitinni Árstíðum.
Sameiginlegur áhugi Elvars og Ragnars sneri ekki eingöngu að tónlistinni sem sveitin átti að flytja heldur einnig að hugmyndafræðinni í kringum hana, þannig skyldi ímynd sveitarinnar vera þannig að fólk áttaði sig ekki almennilega á því hvar það hefði hana – hvort um væri að ræða grín eða alvöru, og m.a. spilaði nafn sveitarinnar Silver Cock þar inn í. Aukinheldur væri sviðsframkoman í anda risastórra nafna í rokkgeiranum þar sem meðlimir hennar væru á hlaupum um sviðið og út í sal, notuðu gjallarhorn og sírenur í sýndarmennskurokki sínu, tækju uppklappslög jafnvel þótt engir væru til að klappa sveitina upp og þar fram eftir götunum – með tónlistar- og textatengdar skírskotanir til ótal rokksveita í stærri kantinum.
Með þetta að leiðarljósi kom Silver Cock þrívegis fram á tónleikum um haustið í Stúdentakjallaranum og Grand rokk ásamt sveitum úr pönk- og indie senunni, og átti fyrir vikið litla samleið með tónlist og áhangendum hinna sveitanna en þar voru sveitir á borð við Brúðarbandið, Viðurstyggð, Tony Blair og Hryðjuverk.
Síðar um haustið hljóðritaði sveitin fimm lög í Studio Föðurland undir stjórn Hjörvars Hjörleifssonar í tveimur lotum, fyrst eitt lag þar sem söngkonan Þóra Björk Þórðardóttir söng m.a. raddir, og svo fjögur lög í síðari lotunni. Fljótlega eftir þá upptökutörn lögðust meðlimir sveitarinnar í sjálfskoðun og voru ekki allir sammála um hvert skyldi stefna, það varð því úr að Símon trymbill sagði skilið við sveitina svo eftir stóðu Ragnar, Gunnar og Elvar. Í framhaldinu var tekin stefnubreyting í átt að proggrokki, ný sveit var stofnuð á grunni Silver Cock og hlaut nafnið Ask the slave. Sú sveit gaf út demóplötu sem hafði að geyma lögin fjögur úr seinni upptökulotunni, og tvö þeirra komu svo síðar út endurunnin á plötu hinnar nýju sveitar Kiss your chora (2007). Þess má að lokum geta að Ask the slave heiðraði Silver Cock á þeirri sömu plötu með lagi sem bar nafn sveitarinnar – eins konar hljóðskúlptúr sem kemur í lok lagsins Little Red Rooster (einu af lögunum frá Silver Cock tímanum) og á að virðast vera tekið upp í áhorfendaskaranum á risastórum tónleikum, þar sem æstur aðdáandi fagnar hljómsveitinni Silver Cock af lífs og sálar kröftum.














































