ef Hið Illa sigrar – síðasta plata Dölla komin út

Út er komin platan ef Hið Illa sigrar en hún telst sjötta sólóplata tónlistarmannsins Dölla (Sölva Jónssonar), sem lést í febrúar á síðasta ári á fertugasta og fimmta aldursári sínu. Áður hafði hann sent frá sér fimm plötur, þá fyrstu árið 2015.

Dölli hafði unnið að plötunni um skeið er hann lést en hún er nú komin út fyrir tilstilli Róberts Arnar Hjálmtýssonar (sem er betur þekktur sem Hljómsveitin Ég) sem var hans hægri hönd við upptökurnar. Dölli er höfundur alls efnis á plötunni, syngur og leikur á kassagítar en Róbert Örn lék á önnur hljóðfæri, annaðist útsetningar og alla hljóð- og eftirvinnslu plötunnar.

ef Hið Illa sigrar, sem er tuttugu laga plata, kemur út í takmörkuðu upplagi á geisladiskaformi og hana er hægt að fá í verslunum eins og Lucky records, 12 tónum og Pennanum Eymundsson í miðbænum en allur ágóði af sölu hennar rennur til níu ára sonar Sölva.

Plötuna er einnig hægt að nálgast á Spotify.