
Arnar Freyr Gunnarsson
Tvö afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:
Skúli Sverrisson bassaleikari er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Hann hefur starfað og verið með annan fótinn í Bandaríkjunum síðustu árin og gefið út fjöldann allan af sólóplötum frá árunum 1997 en á árum áður starfaði hann í hljómsveitum eins og Pax Vobis, Gömmum og Smartbandinu. Skúli hefur einkum verið djasstengdur, unnið með tónlistarfólki eins og Óskari Guðjónssyni, Jóel Pálssyni, Ólöfu Arnalds og Hilmari Jenssyni, og leikið á plötum margra tónlistarmanna.
Söngvarinn Arnar Freyr Gunnarsson er sömuleiðis fimmtíu og fimm ára gamall á þessum degi. Arnar Freyr varð þjóðþekktur þegar hann sigraði Látúnsbarkakeppnina sumarið 1988 en hann hefur einnig sungið og leikið á gítar í fjölmörgum hljómsveitum s.s. Örkinni hans Nóa, Búningunum, Vaxandi, Hugmynd o.fl., hann hefur jafnframt sent frá sér sólóefni.
Vissir þú að Sigtryggur Baldursson fæddist í Noregi?














































