Afmælisbörn 6. nóvember 2021

Jónas Sen

Í dag eru þrjú tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Jónas Sen er fimmtíu og níu ára gamall í dag. Jónas er píanóleikari, tónskáld og tónlistargagnrýnandi á Fréttablaðinu og hefur fengist við tónlist af ýmsu tagi, hann gaf t.d. út plötu með píanóverkum fyrir um tveimur áratugum og hefur einnig gefið út plötu með söngkonunni Ásgerði Júníusdóttur en hefur í auknum mæli snúið sér að raftónlist, sem m.a. hefur komið út á safnplötum.

Halldór Bragason blúsari eða bara Dóri er sextíu og fimm ára í dag. Allir þekkja hljómsveit hans, Vini Dóra sem hefur gefið út fjölda platna en hann hefur einnig leikið með fjölda blússveita s.s. Landsliðinu, The Riot, Þrælunum, Blúsboltunum og Big nós band og verið í forsvari fyrir blústónlist hér á landi ásamt fleirum, Dóri var kjörinn heiðursfélagi Blúshátíðar í Reykjavík 2013.

Þá hefði Sveinn (Valdemar) Ólafsson tónlistarmaður einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 1987. Sveinn (fæddur 1918) sem var menntaður fiðluleikari og lærði síðar bæði á saxófón og lágfiðlu, lék m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og strengjasveitinni Fjarkanum auk þess að spila með léttari sveitum eins og Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Þóris Jónssonar, var þó öllu þekktari fyrir félagsmálastörf sín í þágu tónlistarinnar en hann var m.a. formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna um tíma.

Vissir þú að söngvarinn Eggert Stefánsson og tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns voru bræður?