Solveig Thorarensen (1933-2020)

Solveig Thorarensen

Solveig Thorarensen var ein af fyrstu dægurlagasöngkonum landsins og var orðin býsna þekkt um tvítugt, hún eins og svo margar aðrar slíkar söngkonur um það leyti hætti að mestu að syngja upp úr tvítugu og sneri sér að húsmóðurhlutverkinu.

Solveig Óskarsdóttir Thorarensen (oft ritað Sólveig) fæddist í Reykjavík haustið 1933. Hún gekk í Menntaskólann í Reykjavík þar sem hún var virk í félagsstarfi skólans, tók þar þátt í leik- og tónlistarstarfinu og vakti þar fyrst athygli sem söngkona, hún hafði þá lært á píanó frá unga aldri en spilaði einnig eftir eyranu og lék t.a.m. stundum undir söng við ýmis tækifæri á menntaskólaárum sínum og reyndar einnig síðar í fjölskylduboðum og væntanlega víðar.

Löngu fyrir tvítugt var hún því farin að syngja á sviði á skemmtunum innan skólans og vorið 1951 var hún einnig farin að syngja í Vetrargarðinum í Tívolíinu í Vatnsmýrinni með hljómsveit Jan Morávek, stundum ásamt Hauki Morthens sem þá var orðinn kunnur söngvari, en einnig söng hún ein með sveitinni. Það sama sumar söng hún nokkuð ásamt Hauki í SKT dægurlagakeppnunum og dansleikjum tengdum þeim, og söng þá jafnframt í útvarpinu. Um það leyti hafði hún einnig einhverju sinni komið fram með hljómsveit Svavars Gests en það gæti hafa verið áður.

Um það leyti sem Solveig lauk stúdentsprófi hóf hún að syngja með Hljómsveit Aage Lorange í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll en einnig kom hún eitthvað fram á skemmtunum sem sólólistakona um það leyti, m.a. á landsbyggðinni. Hún átti síðar eftir að syngja með fleiri hljómsveitum s.s. hljómsveit Carls Billich (ásamt Alfreð Clausen) og fleiri sveitum, m.a. í áðurnefndri SKT dægurlagakeppnum.

Sumarið 1955 reis sól Solveigar hvað hæst þegar hún söng m.a. í revíukabarett Íslenskra tóna – Á vængjum söngsins um víða veröld, í Austurbæjarbíói og þar var hún auglýst sem ein af vinsælustu dægurlagasöngvurunum. Þar söng hún m.a. í Tóna systrum sem þá gaf út þrjár plötur, m.a. með lögunum Pabbi vill mambó, Bergmál og Unnusta sjómannsins sem öll nutu vinsælda. Solveig staldraði þó stutt við í Tóna systrum enda hafði hún þá meira en nóg að gera á öðrum vígsstöðvum. Hún hélt áfram að syngja fram á sumarið 1956, m.a. franska tónlist á söngskemmtunum við undirleik Aage Lorange en einnig með hljómsveit í Tjarnarcafe en virðist svo hætta öllum söng síðsumars og hvarf mjög snögglega af sjónarsviðinu, algengt var þá að ungar dægurlagasöngkonur sneru baki við tónlistinni til að sinna fjölskyldu- og móðurhlutverkinu.

Solveig birtist aftur um 1970 sem sjónvarpsþula í tiltölulega nýstofnuðu Ríkissjónvarpi en hún var þá ráðsett fjögurra barna móðir og húsmóðir, hún menntaði sig og varð síðar kunn sem þýðandi og menntaskólakennari, og þýddi m.a. bókina Dýragarðsbörnin sem margir þekkja. Þrátt fyrir að hafa lagt dægurlagasönginn á hilluna söng hún í Söngsveit Fílharmóníunnar um árabil og sótti þá einkatíma í söng en einsöng lagði hún aldrei fyrir sig aftur.

Solveig Thorarensen lést árið 2020, á áttugasta og sjöunda aldursári.

Efni á plötum