
Sónar
Bítlasveitin Sónar starfaði á Akranesi um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar og naut töluverðra vinsælda meðal unglinga á Skaganum.
Sónar voru að öllum líkindum stofnaðir haustið 1964 og gæti hafa verið gítarsveit í upphafi, þ.e. leikið tónlist í anda The Shadows. Sveitin starfaði að minnsta kosti fram til 1966 og lék mestmegnis á dansleikjum í heimabænum Akranesi og þá einkum í Rein, þeir félagar komu þó einnig til Reykjavíkur og léku einnig t.d. í félagsheimilinu Hlégarði og svo í Þórsmörk um verslunarmannahelgina 1965, þá var sveitin ein þeirra sem léku á öskudagstónleikum í Háskólabíói árið 1966.
Meðlimir Sóna voru þeir Smári Hannesson rythmagítarleikari, Bjarni Þór Bjarnason sólógítarleikari, Brynjar Víkingur Sigurðsson bassaleikari og Viðar Stefánsson trommuleikari.














































