Stefán P. Þorbergsson (1956-)

Stefán P.

Tónlistar- og flugmaðurinn Stefán P. Þorbergsson hefur starfrækt hljómsveitir í eigin nafni í áratugi og gert það gott í árshátíðarbransanum, yfirleitt hefur ekki farið mikið fyrir honum og hljómsveitum hans en þær hafa samt sem áður leikið á þúsundum dansleikja í flestum samkomuhúsum landsins og hafa einnig komið við sögu á nokkrum hljómplötum.

Stefán Pétur Þorbergsson (fæddur 1956) eða Stefán P. eins og hann er yfirleitt kallaður var líklega um tvítugt er hann byrjaði að leika með hljómsveitum sem gáfu af sér tekjur af dansleikjaspilamennsku, fyrst með Bjarna Sigurðssyni í Tríói ´72 en svo stofnaði hann eigin sveit laust eftir miðjan áttunda áratuginn og með henni átti hann eftir að starfa um margra áratuga skeið sem söngvari, gítar- og hljómborðsleikari. Hljómsveit Stefáns P. starfaði líklega nokkuð samfleytt og framan af mikið með sama mannskap en einhverjar mannabreytingar urðu á sveitinni með tímanum, og varð hún jafnframt nokkuð breytileg að stærð eftir sem tíminn leið. Á bestu árum sínum lék sveitin hartnær allar helgar ársins, yfirleitt á árshátíðum og hvers kyns smærri einkasamkvæmum yfir vetrarmánuðina en á sumrin voru það sveitaböllin sem réðu ríkjum og þar kepptu Stefán og félagar við mun stærri og þekktari bönd og oft með skemmtikrafta eins og Baldur Brjánsson og slíka meðferðis, auk nektardansmeyjar sem alltaf trekkti að.

Á níunda áratugnum færði sveitin sig meira inn á dansstaði höfuðborgarsvæðisins og lék þá fyrir dansi á stöðum eins og Danshöllinni og þess konar stöðum en sveitin fór einnig í nokkur skipti erlendis til spilamennsku. Um tíma starfaði Stefán mikið með Pétri Hjálmarssyni á tíunda áratugnum og saman léku þeir á stöðum eins og Ölkjallaranum, Fógetanum og Mímisbar á Sögu, þeir félagar kölluðu sig stundum Hljómsveit Stefáns P. þótt þeir væru bara tveir en einnig starfaði Stefán um skeið þá með hljómsveitinni Danssporinu. Stefán hefur einnig lítillega fengist við leikhústónlist einn síns liðs.

Með hljómsveit sinni lék Stefán inn á nokkrar plötur og má þar t.d. nefna tvær jólaplötur með Guðmundi Rúnari Lúðvíkssyni þar sem hann söng reyndar einnig, þá lék sveitin undir á tveggja laga plötu Vestmannaeyingsins Ágústs Stefánssonar (Gústa) þar sem annað lagið, Nú meikarðu það Gústi naut nokkurra vinsælda. Hljómsveitin sendi svo frá sér kassettu í takmörkuðu upplagi um miðjan níunda áratuginn og árið 2013 kom út geisladiskur með þeim lögum auk fleiri sem sveitin hafði hljóðritað á ferli sínum, þá hafði sveitin ekki starfað í nokkur ár en spilaði nokkuð eftir það. Söng Stefáns og hljóðfæraleik má jafnframt heyra á nokkrum plötum s.s. Lýðs Ægissonar, Stórsveitar Harmóníkufélags Héraðsbúa og á styrktarplötunni Börnin heim en hann hefur einnig gefið út plötu ásamt eiginkonu sinni, mágkonu og svila undir nafninu Fjögur á fjöllum.

Minna hefur farið fyrir Stefáni á tónlistarsviðinu síðustu árin fyrir utan að sveit hans kom saman eftir plötuútgáfuna 2013 eins og áður er nefnt og má því reikna með að hann sé að mestu hættur tónlistariðkun þegar þetta er ritað.