Afmælisbörn 14. október 2022

Siggi pönk

Afmælisbörn Glatkistunnar eru tvö í dag:

Einn af fjölmörgum sem borið hafa nafnið Siggi pönk á afmæli í dag, það er Sigurður Ágústsson en hann er fimmtíu og níu ára gamall. Siggi pönk varð landsþekktur þegar hann kom fram í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík ásamt pönkhljómsveit sinni, Sjálfsfróun en hann starfaði einnig á sínum tíma með tengdum sveitum eins og Biafra restaurant, LSD og Englaryki.

Sr. Bjarni Þorsteinsson þjóðlagasafnari frá Siglufirði (1861-1938) átti afmæli þennan dag. Bjarni var þekktur fyrir þjóðlagasafn sitt en hann safnaði íslenskum þjóðlögum um tuttugu fimm ára skeið og gaf út undir nafninu Íslenzk þjóðlög árið 1905. Um var að ræða þúsund blaðsíðna rit sem hafði að geyma um fimm hundruð lög og hafa margir sótt í þennan sjóð Bjarna, meðal annars hljómsveitin Þursaflokkurinn. Bjarni, sem var prestur á Siglufirði, samdi einnig sjálfur sönglög en minnisvarði um hann var reistur þar í bæ 2013.

Vissir þú að Hljómar léku á plötu handboltalandsliðsins og Ómars Ragnarssonar sem kom út 1974?