Afmælisbörn 1. janúar 2023

Ólafur Magnússon frá Mosfell

Glatkistan hefur þrjú tónlistartengd afmælisbörn á þessum fyrsta degi ársins 2023:

Felix Bergsson söngvari, leikari og fjölmiðlamaður á fimmtíu og sex ára afmæli á þessum degi. Felix vakti fyrst athygli í uppfærslu Verzlunarskóla Íslands á söngleiknum Rocky horror, varð síðar söngvari Greifanna sem sigraði Músíktilraunir vorið 1986, vann að barnaefni ásamt Gunnari Helgasyni og hóf enn síðar sólósöngferil eftir að hafa menntað sig í leiklist, hann hefur sent frá sér tvær breiðskífur.

Þá hefði Ólafur Magnússon frá Mosfelli einnig átt afmæli í dag en hann lést 1991. Ólafur sem var kunnur bassasöngvari úr Mosfellsdalnum fæddist 1910, söng með ýmsum karlakórum á höfuðborgarsvæðinu og í Mosfellssveit, og oft sem einsöngvari. Hann hélt þó ekki einsöngstónleika fyrr en hann gaf út fyrstu plötu sína, Ég lít í anda liðna tíð, þá var hann orðinn sjötíu og fimm ára gamall.

Og að síðustu er hér nefndur verslunarmaðurinn Gísli Jónsson sem var uppi á árunum 1871 til 1938 en hann er þekktastur á tónlistarsviðinu fyrir að stofna þrjár lúðrasveitir, þær störfuðu á Eyrarbakka, Vík í Mýrdal og Borgarnesi þar sem hann starfaði og bjó.

Vissir þú að hljómsveitin Hettumávar gaf nýlega út sjö laga plötu?