Afmælisbörn 27. janúar 2023

Haukur Viðar Alfreðsson

Í dag eru tvö tónlistartengd afmælisbörn á lista Glatkistunnar:

Elmar Gilbertsson tenórsöngvari er fjörutíu og fimm ára gamall á þessum degi. Hann er einn af fremstu söngvurum landsins og nam söng í Hollandi en hann hefur starfað þar og víðar í Evrópu. Elmar er líkast til hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í óperunni Ragnheiði en hann hefur auðvitað sungið í ótal óperuuppfærslum og tónleikum í gegnum tíðina hér heima og erlendis. Hann hefur bæði hlotið Grímuverðlaun og verið kjörinn söngvari ársins flokki sígildrar/samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Þá fagnar Haukur Viðar Alfreðsson fjörutíu og þriggja ára afmælisdegi sínum í dag. Haukur Viðar hefur sungið og leikið á gítar og bassa í fjölda hljómsveita en þekktust þeirra eru Morðingjarnir olg Vígspá, einnig má nefna sveitir eins og Leather beezt, Dáðadrengir og Hellvar. Þá er hann einn þeirra sem halda úti hlaðvarpinu Bestu plötunni.

Vissir þú að tónskáldin Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson voru náskyldir?