Sveinn Ólafsson (1913-87)

Sveinn Ólafsson á yngri árum

Nafn Sveins Ólafssonar ætti að vera mun meira áberandi þegar kemur að sögu íslenskrar tónlistar heldur en raun hefur orðið því hann kom að mörgum frumkvöðlaverkefnum þó ekki hafi hann endilega sem einstaklingur verið í fararbroddi hvað þau varðar. Hann var til að mynda fiðluleikari í fyrstu óperettunni sem sett var á svið hérlendis, fyrstu óratoríuuppfærslunni, fyrstu óperuuppfærslunni, í fyrsta strengjakvartettnum og fyrstu útgáfu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og hefur aukinheldur verið nefndur sem fyrsti íslenski djassleikarinn því hann lék með hljómsveit Arthurs Roseberry á Hótel Borg um miðjan fjórða áratuginn en á þeim tíma einokuðu erlendir hljóðfæraleikarar að mestu þann markað.

Sveinn Valdemar Ólafsson var fæddur haustið 1913 vestur á Bíldudal og fór um tíu ára aldur að stunda sjómennsku yfir sumartímann fyrir vestan, hann ætlaði sér að verða sjómaður en örlögin tóku þannig í taumana að fjölskyldan fluttist suður til Reykjavíkur árið 1926 en hann var þá á þrettánda ári. Þá þegar hafði komið í ljós að pilturinn væri músíkalskur og þrátt fyrir ungan aldur hafði hann byrjað að leika á harmonikku á dansleikjum í Arnarfirðinum en honum hafði þá áskotnast slíkt hljóðfæri. Í Reykjavík eignaðist hann hins vegar fiðlu fljótlega eftir að suður var komið og naut hann fyrst í stað handleiðslu Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara áður en hann fór svo í fullt tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík átján ára gamall.

Fiðlan varð aðalhljóðfæri Sveins og árið 1932 hóf hann að leika opinberlega á hana, fyrst síðdegis á kaffihúsum bæjarins þar sem slíkt var þá að ryðja sér til rúms en síðan „danstónlist“ ásamt Árna Björnssyni píanóleikara (síðar tónskáldi) á Hótel Birninum í Hafnarfirði. Þaðan lá leiðin á Hótel Borg þar sem hann var mikið næstu árin og lék þar í danshljómsveitum ásamt Bjarna Böðvarssyni (Bjarna Bö) og erlendum tónlistarmönnum en þá tíðkaðist að flytja inn hljóðfæraleikara til landsins til að leika á stærstu hótelunum enda voru ekki frambærilegir íslenskir tónlistarmenn á hverju strái á þeim tíma – en það átti eftir að breytast um og upp úr 1940 með tilkomu Tónlistarfélagsins í Reykjavík sem hafði verið stofnað 1932, það sama ár var FÍH stofnað (sem fyrstu áratugina hét Félag íslenskra hljóðfæraleikara) og það félag barðist fyrir því að Íslendingar gengju fyrir útlendingunum – fyrst í stað þó með litlum árangri.

Sveinn Ólafsson

Sveinn var enn í námi þegar kominn var vísir að eins konar sinfóníuhljómsveit, Hljómsveit Reykjavíkur og með henni lék hann í fyrstu uppfærslu á óperettu hérlendis – Meyjaskemmunni árið 1934, það sama ár hafði hann eignast saxófón og naut hann tilsagnar hljómsveitarstjórans á Borginni, Jack Quinet en það þótt mikill kostur að geta leikið á fleiri en eitt hljóðfæri með danshljómsveitunum. Um það leyti sem hann lauk tónlistarnámi sínu 1935 gekk hann til liðs við nýstofnaða hljómsveit FÍH og var þar sem fiðluleikari og söngvari og um þær mundir lék hann einnig með hljómsveit Aage Lorange í Iðnó auk þess að vera í hljómsveit Hótel Borgar, sem þá var undir stjórn Arthurs Roseberry. Hljómsveitin á Borginni (sem iðulega var kallað Borgarbandið) lék á þeim tíma svokallaða djasstónlist sem var Íslendingum nýtt og framandi fyrirbæri og lék Sveinn með þeirri sveit á saxófón og var þar með að öllum líkindum fyrstur Íslendinga (e.t.v. ásamt Bjarna Bö) til að leika djass því aðrir liðsmenn sveitarinnar voru sem fyrr segir erlendir – Bretar í þessu tilviki. Þá lék hann einnig „kaffihúsatónlist“ ásamt fjórum Ungverjum á Hótel Íslandi en þetta segir svolítið um hvernig ástandið var í tónlistarmálum í Reykjavík um miðjan fjórða áratuginn – sannkallað alþjóðlegt yfirbragð. Og þannig átti það eftir að verða alveg fram yfir styrjaldarárin, Sveinn lék t.d. með hljómsveit Carls Billich á Landinu (Hótel Íslandi) ásamt Þorvaldi Steingrímssyni en aðrir liðsmenn þeirrar sveitar voru Þjóðverjar – þeim snarfækkaði svo eðlilega vorið 1940 þegar Bretar hernámu landið. Sumarið 1938 hafði Sveinn reyndar skroppið til Kaupmannahafnar ásamt Vilhjálmi Guðjónssyni og lék þar um tveggja mánaða skeið með hljómsveit Anker Paulsen en að öðru leyti starfaði hann mest hér heima.

Sveinn var þarna eftir tónlistarnámið orðinn atvinnumaður í tónlistinni, hann fékkst eingöngu við spilamennsku og hóf svo einnig við útskrift að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík og var svo öflugur liðsmaður í FÍH þar sem hann gegndi ýmsum félagsstörfum næstu áratugina, hann var þar um tíma formaður en var lengi í stjórn og varastjórn.

Tónlistarlífið var undir lok fjórða áratugarins komið í mikinn blóma, með stofnun tónlistarfélagsins og tónlistarskóla í framhaldi af því hafði fjöldi ungra tónlistarmanna komið fram á sjónarsviðið og mikill metnaður var til staðar. Eftir uppfærsluna á Meyjaskemmunni sást að hægt var að ráðast í stærri verk og haustið 1939 réðist Hljómsveit Reykjavíkur (sem Sveinn var þá í) ásamt stórum blönduðum kór og einsöngvurum í að flytja óratoríuna Sköpunina (eftir Haydn) á stórum tónleikum undir stjórn Páls Ísólfssonar, ekkert hús hér á landi var þá nógu stórt svo gripið var til þess ráðs að hafa tónleikana í bifreiðaskála Steindórs við Seljaveg en það var eitt húsa nógu stórt til að hýsa bæði flytjendur og áhorfendur en áratugir voru þá enn í að viðunandi tónleikahús yrði reist á Íslandi – um tvö þúsund áhorfendur voru viðstaddir tónleikana sem þóttu mikið þrekvirki.

Sveinn Ólafsson

Eftir 1940 varð úrval danshljómsveita smám saman fjölbreyttara eftir því sem íslenskum hljóðfæraleikurum fjölgaði og samhliða því varð fjöldi sveita kenndur við íslenskra hljómsveitastjóra, Sveinn lék t.d. með hljómsveit Þóris Jónssonar um tíma, hljómsveit Carls Billich (sem síðar hlaut íslenskan ríkisborgararétt) og hljómsveit Baldurs Kristjánssonar en einnig var starfandi danshljómsveit innan FÍH sem Sveinn stjórnaði sjálfur um tíma en hann lék bæði á saxófón og fiðlu í þeim sveitum. Snemma á fimmta áratugnum skipti hann reyndar úr fiðlu yfir í lágfiðlu og lék klassíska tónlist með strengjasveitum af ýmsum stærðum sem léku t.a.m. í útvarpssal og á tónleikum – og svo kom að því að slíkur strengjakvartett festi sig í sessi og hlaut nafnið Fjarkinn og kom hann víða við sögu á tónleikum á árunum 1948-50, Fjarkinn varð fyrstur strengjasveita til að verða að eiginlegri starfandi hljómsveit en ekki skammtíma verkefni hugsað til einnar eða tveggja uppákoma en samhliða slíkum verkefnum starfaði Sveinn með Útvarpshljómsveitinni svokölluðu sem rann saman við Hljómsveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur árið 1950 og hlaut nafnið Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sveinn lék allt frá upphafstónum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og fram undir miðjan níunda áratuginn með henni, lengi vel sem fyrsti víóluleikari og stundum sem einleikari með sveitinni.

Upp úr 1950 hætti Sveinn mikið til að leika á saxófóninn með danshljómsveitum enda hafði hann þá meira en nóg að gera sem lágfiðluleikari, hann kom þó stöku sinnum fram á djasskvöldum og tók þátt í jam sessionum með saxið en einbeitti sér að fiðluleiknum, hann hafði farið aftur til Danmerkum í nokkra mánuði árið 1946 til framhaldsnáms í lágfiðluleik þannig að það hljóðfæri tók nú alveg yfir. Það var í raun ekki fyrr en á níunda áratugnum sem Sveinn blés aftur í saxófón opinberlega með danshljómsveit en þá var slík sveit með eldri tónlistarmönnum sett saman í tilefni af 50 ára afmæli FÍH 1982, áður hafði hann reyndar leikið um tíma með lúðrasveitinni Svaninum. Þó svo að Sveinn væri að mestu bundinn sinfóníuhljómsveitinni eftir miðja öldina voru önnur margvísleg verkefni sem hann tókst á við sem fiðluleikari, hann lék áfram með minni kammersveitum í útvarpssal, fór m.a. í tónleikaferð um landið með hóp á vegum útvarpsins, lék í revíusýningum og fékk við alls kyns tilfallandi spilamennsku og m.a. lék hann inn á fáeinar plötur, Sinfóníuhljómsveit Íslands var þó auðvitað alltaf fremst í flokki.

Sveinn lést haustið 1987 en hann hafði þá verið veikur fyrir hjarta um nokkurra ára skeið. Eins og segir í upphafi er merkilegt að nafni hans hafi ekki verið haldið meira á lofti, hann var þó heiðraður af Jazzvakningu á sínum tíma þar sem hann var gerður að heiðursfélaga Jazzsambands Íslands.