Angistarfullt matarboð Baldurs í nýju myndbandi

Úr myndbandi Baldurs „DAMN IT.“

„DAMN IT.” heitir fyrsta lagið og myndbandið sem tónlistarmaðurinn Baldur gefur út undir eigin nafni. Lagið markar fyrstu spor sólóferils hans og snertir málefni á borð við sjálfsefa, kvíða og ráðvillu. Þröngskífa er einnig í bígerð og mun líta dagsins ljós síðar á árinu.

Baldur Hjörleifsson má helst skilgreina sem einhvers konar tónlistarlegt kamelljón. Í frumraun sinni sem sjálfstæður flytjandi og lagahöfundur í „DAMN IT.“ býður hann til listrænnar veislu sem gæti allt eins verið upphaf að óvissuferð um persónulegan tónheim listamannsins sem einkennist af hugmyndauðgi og tónlistarlegri fjölbreytni. Tvö ný lög eru væntanleg á næstunni sem fylgt verður eftir með EP síðar á árinu.

Baldur fæddist í Reykjavík en ólst upp í Svarfaðardal. Tónlistaráhugann á hann ekki langt að sækja. Foreldrar hans starfa bæði við tónlist. Móðir hans er klassísk söngkona og faðir hans skemmtikraftur. Hann lærði á klarinett sem barn, söng í barnakór og eignaðist 13 ára sinn fyrsta gítar. Árið 2008 flutti hann til Austurríkis og stofnaði þar ásamt bræðrum sínum og fleirum hljómsveitina „Chili and the Whale Killers“. Austurríki átti ekki við hann og ári síðar flutti hann til Reykjavíkur. Hann innritaðist í kvikmyndafræði í HÍ og síðar í tónsmíðadeild LHÍ. Síðar hélt hann til Berlínar og lagði stund á „Electronic Music Production“ þar sem segja má að hann hafi fundið fjölina sína.

Baldur hefur komið að mörgum fjölbreyttum verkefnum á síðustu árum, ýmist sem lagahöfundur, upptökustjóri eða hljóðfæraleikari. Þar má t.a.m. nefna RYBA, Flesh Machine, Sólveig Matthildur, Kónguló og Brynja. Þessi fyrsta sólóútgáfa Baldurs sýnir vel breidd hans sem tónlistarmaður og útsetjari. Myndbandinu við lagið var leikstýrt af Árna Jónssyni myndlistarmanni og lýsir vel yrkisefninu; mótsögninni sem felst í því að gera sér engar væntingar af ótta við að standa ekki undir þeim en finna til þæginda í óþægindunum.

Myndbandið við „DAMN IT.“ er að finna á Youtube og lagið sjálft má nálgast á Spotify.