
Hallberg Svavarsson
Í dag eru fimm tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:
Árni Johnsen Vestmannaeyingur og fyrrverandi alþingismaður er sjötíu og níu ára gamall í dag. Hann var framarlega í þjóðlagasöngvaravakningunni um og upp úr 1970, m.a. í félagsskapnum Vikivaka og kom oft fram á samkomum því tengt. Hann var einnig hluti af Eyjaliðinu sem gaf út plötu til styrktar Vestmannaeyingum eftir gos, og hefur gefið út um tug sólóplatna, þá fyrstu 1971.
Kristinn Sigmundsson stórsöngvari og bassi er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Kristinn hann nam söngfræðin við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Guðmundar Jónssonar áður en hann hélt til Austurríkis og Bandaríkjanna til framhaldsnáms. Kristinn hefur gefið út fjöldann allan af plötum og sungið á plötum óteljandi annarra listamanna.
Hreindís Ylva Garðarsdóttir söngkona er þrjátíu og fjögurra ára í dag en hún er þekktust fyrir að gefa út plötu með lögum sem Erla Þorsteins gerði vinsæl á árum áður en einnig hefur hún sungið í undankeppnum Eurovision hér heima. Hreindís Ylva vakti fyrst athygli þegar hún söng lag á plötu tengt danslagakeppni Sæluvikunnar á Sauðárkróki, þá tíu ára gömul.
Þá er Bogi Reynisson fjörutíu og sjö ára gamall á þessum degi en hann hefur spilað á bassa í fjölmörgum hljómsveitum, þeirra á meðal eru sveitir eins og SSSpan, Sororicide, Bacon, Clockworking diabolus, Gor, Putrid, Rut+, Pulsan, Xerox og Stjörnukisi, svo nokkrar séu nefndar. Bogi hefur ennfremur starfað við upptökur á tónlist.
Hallberg Svavarsson átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 2022. Hallberg (fæddur 1956) lék á bassa með fjölmörgum hljómsveitum á ferli sínum og hér má nefna sveitir eins og Pónik, Birtu, Cogito, Hljómsveit Stefáns P. og Burgeisa svo nokkrar séu nefndar, þá lék hann inn á fjölda platna um ævina.
Að lokum er hér nefndur Ásgeir Guðjónsson tónlistarmaður sem er sextíu og fjögurra ára í dag en hann lék hér á árum áður með fjölmörgum og mismunandi hljómsveitum af ýmsu tagi. Hér má nefna sveitir eins og Á rás eitt, Misgengið, Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar, Opus, Kennarabland MS, Stæla, Víkingasveitina, Fritz quntett, Gleðisveit Guðlaugar og Lögfræðingana. Ásgeir hefur búið erlendis síðustu árin og meðal annars stjórnað kór Íslendinga í Lundi í Svíþjóð.
Vissir þú að Sigríður Beinteinsdóttir rak söngskóla í Noregi?