
Barrelhouse Blackie
Söngvarinn Bjarni Guðmundsson kom fram í fjölmörg skipti á árunum 1957 til 60 undir aukasjálfinu Barrelhouse Blackie.
Bjarni, sem kom úr Hafnarfirðinum var sjómaður og hafði eitthvað sungið með hljómsveitum, á rokkskemmtun haustið 1957 kom hann hins vegar í fyrsta skipti fram sem Barrelhouse Blackie en í því gervi málaði hann sig svartan í framan og með svarta hárkollu söng hann og lék á píanó.
Barrelhouse Blackie vakti mikla athygli fyrir framlag sitt og eitthvað var fólk að fetta fingur út í nafngiftina en í kringum 1960 tíðkaðist illa eða ekki að nota erlend nöfn í tengslum við menningu og listir. Little Richard var í uppáhaldi hjá kappannum en einnig fengu lög eins og Blueberry hill að fljóta með á prógrammi hans.
Bjarni hafði lagt Barrelhouse Blackie að mestu eða öllu leyti til hliðar árið 1960.














































