Hljómsveit Hreggviðs Jónssonar (1983-89)

Harmonikkuleikarinn Hreggviður Jónsson frá Torfastöðum í Jökulsárhlíð starfrækti hljómsveit í eigin nafni á níunda áratug síðustu aldar, sveitin lék víða um austanvert landið og ýmsir komu við sögu hennar meðan hún starfaði.

Hljómsveit Hreggviðs Jónssonar var stofnuð austur á Héraði haustið 1983 og starfaði hún líklega nokkuð óslitið til vorsins 1989 en þó kann að vera að hlé hafi verið á starfsemi hennar um miðbik tímabilsins. Alltént liggur fyrir að frá og með haustinu 1986 og til vors 1989 voru þau Gylfi Björnsson bassaleikari, Ragnar Þorsteinsson trommuleikari, Þórlaug Jónsdóttir harmonikkuleikari og svo Hreggviður sjálfur í henni en áður höfðu ýmsir komið við sögu sveitarinnar s.s. Bjarni H. Kristjánsson gítarleikari, Gréta Sigurjónsdóttir gítarleikari (Dúkkurlísurnar o.fl.), Höskuldur Svavarsson bassaleikari, Sigurður Jakobsson trommuleikari, Sigurður G. Björnsson bassaleikari og líklega fleiri.