Sveinbjörn Þorsteinsson (1914-2007)

Sveinbjörn Þorsteinsson

Sveinbjörn Þorsteinsson var fyrir miðja síðustu öld þekktur skemmtikraftur en hann fór þá víða og skemmti með söng og gítarspili ásamt Ólafi Beinteinssyni félaga sínum.

Sveinbjörn fæddist að Hurðarbaki í Borgarfirði vorið 1914 og bjó þar framan af ævi. Hann mun hafa lært eitthvað á fiðlu á sínum yngri árum og einnig mun hann hafa leikið á lútu, en þegar hann hafði aldur til lék hann á dansleikjum í sveitinni – ekki liggur fyrir hvort það var á fiðlu.

Það var svo árið 1936 sem þeir Sveinbjörn og Ólafur Beinteinsson komu fyrst fram saman sem dúett með gítarspili og söng, og það áttu þeir eftir að gera um árabil, mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu og á suðvesturhorni landsins en síðar víðar um landsbyggðina s.s. á héraðsmótum og ýmsum skemmtunum og nutu þeir mikilla vinsælda og hylli allt fram yfir lok heimsstyrjaldar um miðjan fimmta áratuginn en þeir komu einnig fram í útvarpi með söng- og tónlistaratriði. Þá mun Sveinbjörn hafa sungið að minnsta kosti einu sinni á dansleik með Danshljómsveit Bjarna Böðvarssonar.

Sveinbjörn hafði flust til Reykjavíkur og starfaði þar lengst af sem teiknikennari en hann hafði numið myndlist á yngri árum. Hann söng á höfuðborgarsvæðinu með Kór Tónlistarfélagsins í Reykjavík og Söngsveitinni Fílharmóníu og mun með fyrrnefnda kórnum m.a. tekið þátt í uppfærslum á óperettum.

Sveinbjörn lést sumarið 2007.