Valskórinn [3] (1993-)

Valskórinn 1993

Blandaður kór hefur verið starfandi innan knattspyrnufélagsins Vals frá árinu 1993 og er líkast til eini starfandi kór innan íþróttafélags hérlendis.

Valskórinn var stofnaður haustið 1993 og voru félagar hans í upphafi um þrjátíu manns, en sú tala hefur nokkurn veginn haldist síðast. Margir meðlima kórsins hafa verið lengi í honum en einnig hefur orðið ágæt endurnýjun innan hans, konur hafa alltaf verið í meirihluta í kórnum. Lagaval Valskórsins hefur alltaf verið í léttari kantinum að megninu til en hann hefur af og til tekist á við stærri áskoranir. Kórinn hefur æfingaaðstöðu í Friðrikskapellu á Hlíðarenda og þar hefur hann æft frá upphafi.

Það var Gylfi Gunnarsson (Þokkabót, Einsdæmi o.fl.) sem var fyrsti stjórnandi kórsins en hann stjórnaði honum frá upphafi og til vorsins 1999, þá um haustið tók Guðjón Steinar Þorláksson (Atónal blús o.fl.) við honum og stýrði til 2004 þegar Bára Grímsdóttir tónskáld (Funi, Grýlurnar o.fl.) tók við. Bára hefur stjórnað kórnum síðan.

Valskórinn 2003

Valskórinn söng fyrst opinberlega fyrir jólin 1993 en sungið við margvísleg tilefni síðan, oft tengt Val en einnig á skemmtunum utan félagsins. Kórinn hefur árlega haldið sjálfstæða vortónleika en einnig er fastur liður í dagskrá hans jólatónleikar og söngur fyrir eldri borgara, kórinn hefur jafnvel farið utan til tónleikahalds. Þá hefur Valskórinn haldið fjölda tónleika í samstarfi við aðra kóra. Ýmsir gestasöngvarar hafa sungið með kórnum í gegnum tíðina og meðal þeirra má nefna Ara Jónsson, Egil Ólafsson, Ragnar Bjarnason, Stefán Hilmarsson, Gissur Pál Gissurarson og Guðrúnu Gunnarsdóttur.

Valskórinn hefur ekki gefið út plötu en söng lagið Valsmenn léttir í lund (sem Guðjón Steinar Þorláksson hafði útsett) inn á plötu sem Halldór Einarsson (Henson) Valsmaður með meiru, hafði sent út sem boðskort í tilefni af stórafmæli sínu.