
Illugi Þórarinsson
Þingeyingurinn Illugi (Arinbjörn) Þórarinsson var kunnur harmonikku- og hljómborðsleikari, iðulega kenndur við Hamraborg í Reykjadal þar sem hann bjó lengstum en hann var fæddur og uppalinn í Mývatnssveit.
Illugi (f. 1935) lék á harmonikku einn síns liðs og með fjölmörgum hljómsveitum um fjörutíu ára skeið – hér má nefna sveitir eins og Sextett Sidda, Illa og Alla og Hljómsveit Sigurðar Friðrikssonar, hann starfrækti ennfremur eigin sveit, Hljómsveit Illuga sem hann stofnaði með sonum sínum og fleirum árið 1978. Hann var einn af stofnendum Harmonikufélags Þingeyinga og var virkur í því félagi, var m.a. í stjórn þess um árabil – hann lék jafnframt með hljómsveit félagsins..
Illugi lést 1991, varð bráðkvaddur aðeins 56 ára gamall. Þess má geta að Hljómsveit Illuga starfaði í um áratug undir því nafni eftir andlát hljómsveitarstjórans eða til ársins 2001.














































