Uzz (1998-2002)

Dúettinn Uzz

Uzz starfaði í kringum aldamótin 2000 og hugsanlega mun lengur en litlar upplýsingar er að finna um þessa sveit.

Uzz var fyrst og fremst sólóverkefni Mýrdælingsins Björns Leifs Þórisson sem hafði starfað með sveitum eins og Lögmönnum og Rocket á unglingsárum sínum.

Uzz kom fram í ýmsum birtingarmyndum, fyrst í blaðaumfjöllun vorið 1998 sem dúett er Björn Leifur söngvari og hljómborðsleikari og Ævar Sveinsson gítarleikari skipuðu. Fáum vikum síðar var dúettinn orðinn að hljómsveit en Björn Sigurðsson bassaleikari og Trausti Jónsson trommuleikari voru þá einnig í sveitinni.

Þá um sumarið (1998) átti sveitin lagið Allt sem ég vil, á safnplötunni Bandalög 8 og lék Uzz nokkuð á öldurhúsum borgarinnar og víðar fram á haustið en þá virðist hún hafa lagst í dvala.

Uzz

Segir svo ekkert af henni fyrr en hún birtist með sjö laga skífu, Eldrauðar varir sumarið 2000 sem hafði verið tekin upp í Eldflaugastöðinni, en hún hafði að geyma létt synthapopp samið af Birni Leifi. Aðstoðarmenn á plötunni virðast koma úr ýmsum áttum og ekki endilega vera fastir meðlimir sveitarinnar. Platan fékk þokkalegustu dóma í Fókus og Morgunblaðinu en vakti að öðru leyti ekki mikla athygli. Eitt laga plötunnar, Nóttin bíður, fór hæst í fjórða sæti á Vinsældarlista Rásar 2 um sumarið.

Uzz virðist hafa verið starfandi til ársins 2002 að minnsta kosti en lítið er annars að finna um sveitina, Ríkharður Flemming Jensen hafði einhverja viðkomu í henni en upplýsingar um frekari mannabreytingar er ekki að finna um Uzz.

Efni á plötum