Þrumuvagninn (1981-82)

Þrumuvagninn

Sumir vilja meina að hljómsveitin Þrumuvagninn sé fyrsta þungarokksveit íslenskrar tónlistarsögu og líklega má færa nokkuð góð rök fyrir því.

Tilurð Þrumuvagnsins er örlítið flókin en hún er í raun sama sveit og Tívolí sem hafði starfað í að minnsta kosti fimm ár við góðan orðstír og m.a.s. gefið út lag sem naut heilmikilla vinsælda á sínum tíma, lagið Fallinn sem enn heyrist einstöku sinnum spilað á öldum ljósvakans.

Miklar mannabreytingar höfðu orðið í Tívolí og voru þeir Eiður Örn Eiðsson söngvari, Brynjólfur Stefánsson bassaleikari, Einar Jónsson gítarleikari og Ólafur Sigurðsson trommuleikari meðlimir sveitarinnar þegar þarna var komið sögu en Ólafur var þá sá eini sem hafði verið frá upphafi í sveitinni. Tónlist hennar hafði þá breyst töluvert frá því í byrjun, þá var fönk- eða djassskotið popp málið en síðar varð sú tónlist að hreinu poppi og þegar sveitin sendi frá sér þriggja laga smáskífu sumarið 1981 var hún kynnt sem „þungarokkshljómsveitin Tívolí“, smáskífan hét Þrumuvagninn en ekkert laganna bar þá það heiti. Með réttu mætti kalla þessa útgáfu Tívolís fyrstu hreinræktuðu þungarokksveit Íslands.

Platan fékk varla nema þokkalega dóma í tímaritinu TT, Helgarpóstinum, Þjóðviljanum og Morgunblaðinu en ágæta í Dagblaðinu.

Í lok sumar hafði Sigurður Reynisson tekið við trommunum af Ólafi og þar með var enginn eftir af upprunalega bandinu og því eðlilegt að sveitin tæki upp annað nafn – Þrumuvagninn. Og þar sem þessi þungarokksútgáfa sveitarinnar gaf út smáskífuna Þrumuvagninn er eðlilegt að platan fylgi nafni sveitarinnar einnig.

Þrumuvagninn 1981

Þrumuvagninn kom fyrst fram undir því nafni í byrjun september og í kjölfarið lék sveitin nokkuð í félagsmiðstöðvum borgarinnar um haustið og víðar reyndar, og fékk afar misjafna dóma. Hvort sem það var út af því eða einhverju öðru dró sveitin sig nokkuð í hlé um jól og áramót 1981-82 en í febrúar birtist hún aftur með nýjan trommuleikara, Eyjólf Jónsson bróður Einars gítarleikara.

Þrumuvagninn varð býsna áberandi í tónleikahaldi um tíma, lék í nokkur skipti á SATT-kvöldum og einnig á afmælishátíð í tilefni af fimmtíu ára afmæli FÍH um vorið og kemur reyndar við sögu á tvöfaldri plötu sem gefin var út í því samhengi.

Um svipað leyti barst út að von væri á plötu frá Þrumuvagninum en sveitin hafði þá gert plötusamning við Steina. Upptökur hófust í Hljóðrita í Hafnarfirði í mars undir stjórn Eiðs Arnar söngvara en hann samdi ennfremur öll lög og texta. Í upphafi hafði verið ráðgert að taka upp fimm laga plötu en þegar Steinar Berg útgefandi heyrði afraksturinn ákvað hann að fylla breiðskífuna sem síðan innihélt níu lög, og telst auðvitað fyrsta þungarokksbreiðskífan sem gefin er út á Íslandi.

Platan kom út um sumarið og bar nafn sveitarinnar. Hún fékk sæmilega dóma í tímaritinu Samúel, Helgarpóstinum og Poppbók Jens Guðmundssonar og góða í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum. Plötunni var víða líkt við tónlist Led Zeppelin og ekki síst söng Eiðs Arnar við Robert Plant og loddi sá stimpill lengi við söngvarann.

Þrumuvagninn 1982

Um haustið 1982 bættist sveitinni liðsstyrkur þegar ungur gítarleikari, Örn Sigmundsson, gekk til liðs við hana. Í kjölfarið tók sveitin nokkrum stefnubreytingum í tónlistinni en spilaði hins vegar lítið og í nóvember kom upp sá orðrómur að Þrumuvagninn væri hættur. Sá orðrómur varð staðfestur stuttu síðar og þar með var sögu sveitarinnar lokið.

Eiður Örn gerði tilraunir til að endurvekja sveitina undir nafninu Chariot of thunder og C.o.t. með ýmsum mannskap, og reyndar kom út ein plata undir síðarnefnda nafninu. 2009 notaði hann Þrumuvagnsnafnið aftur og fór langt með að taka upp plötu (Afterlife) sem ráðgert var að gefa út í Danmörku, úr því varð ekki og liggur sú plata líkast til ókláruð. Sigurður Gíslason, Rúnar Hallgrímsson og Ingólfur Sigurðsson voru í þeirri útgáfu sveitarinnar með Eiði Erni.

Efni á plötum

Sjá einnig Tívolí