Þú og ég (1979-82)

Þú og ég

Segja má að dúettinn Þú og ég (Þú & ég) sé holdgervingur diskótónlistarinnar á Íslandi en sú tónlist var reyndar á niðurleið víðast annars staðar þegar tvíeykið kom fram á sjónarsviðið. Þú og ég nutu þó gríðarmikilla vinsælda á sínum tíma og mörg laga þeirra eru enn vel þekkt óháð kynslóðum.

Gunnar Þórðarson var maðurinn á bak við Þú og ég en hann hafði verið í fararbroddi íslenskrar tónlistar í hartnær fimmtán ár, fyrst með sveitum eins og Hljómum / Thors hammer, Trúbrot, Lónlí blúbojs og síðast Lummunum, en með þeim síðast töldu og endurvinnslu laga upp úr Vísnabókinni hafði hann verið gagnrýndur fyrir „iðnaðarframleiðslu“ á tónlist.

Gunnar hafði þarna fengið þá hugmynd (1979) að gefa út plötu með dúett sem myndi syngja eins konar diskótónlist eftir hann sjálfan og aðra. Hann hafði augastað á Jóhanni Helgasyni sem hafði löngu skapað sér nafn með hljómsveitum eins og Change, í samstarfi við Magnús Þór Sigmundssonar undir nafninu Magnús og Jóhann, og sem sólólistamaður en erfiðara reyndist að finna söngkonu sem sungið gæti á móti honum, þær voru ýmist uppteknar eða samningsbundnar Skífunni en Gunnar hafði þá þegar gert samkomulag við Steinar Berg um útgáfu plötunnar. Það var síðan Jóhann sem stakk upp á hinni tuttugu og tveggja ára gömlu söngkonu, Helgu Möller, sem hafði sungið með honum í skamman tíma í hljómsveitinni Celsius árið 1977. Helga hafði einnig komið fram sem trúbador áður og hafði ennfremur sungið á fyrstu plötu (lítilli) Melchior fimm árum fyrr en starfaði um þetta leyti sem flugfreyja.

Helga var til í tuskið þegar haft var samband við hana vorið 1979 en þó var viðbúið að það myndi setja strik í reikninginn að hún var þá þunguð og myndi verða léttari um það leyti sem platan kæmi út um haustið.

Platan var síðan unnin um sumarið og löngu áður en hún kom út voru fjölmiðlar farnir að fjalla um óútkomna diskóplötu Gunna Þórðar og því var nokkur eftirvænting eftir henni. Síðsumars var platan tilbúin en beðið var með útgáfu hennar til haustsins til að tryggja betri sölu en aðalplötusalan fór fram fyrir jólin, á þessum tíma voru plötur tiltölulega dýrar þar sem ríkið tók sitt í formi skatta og því þótti öruggara að bíða aðalvertíðarinnar, það vóg einnig þungt hversu dýr platan var í vinnslu en hún var að miklu leyti hljóðrituð í London með erlendum hljóðfæraleikurum að mestu og nostrað var við hvert smáatriði, allt frá tónlistinni sjálfri til umbúðanna utan um plötuna.

Þú og ég á opnumynd í Vikunni 1979

Dúettinn hlaut nafnið Þú og ég og platan titilinn Ljúfa líf, og kom út í október eða um það leyti og Helga eignaðist barnið. Reynt var eftir fremsta megni að kynna plötuna þrátt fyrir það, og Helga setti það ekki fyrir sig að mæta með kornabarn með sér á tónleika en Þú og ég komu mestmegnis fram á stuttum tónleikum á skemmtistöðum og diskótekum með undirspil af bandi, oft með fjóra dansara sér til fulltingis.

Ljúfa líf sló samstundis í gegn og fór rakleiðis á toppinn í plötusölulistum hér heima. Fyrsta upplagið, um fimmtán hundruð eintök seldust á fáeinum dögum og nokkuð fyrir jól höfðu selst um fimm þúsund eintök sem þá var gullsala. Alls seldist platan í um þrettán þúsund eintökum og varð söluhæsta platan á Íslandi árið 1979. Platan hlaut aukinheldur glimrandi dóma, frábæra í Tímanum og Morgunblaðinu en reyndar slaka í Poppbók Jens Guðmundssonar. Í ársuppgjöri Dagblaðsins og Vikunnar var Ljúfa líf kjörin plata ársins og Gunnar Þórðarson var klárlega tónlistarmaður ársins á Íslandi.

Flest laganna á plötunni nutu vinsælda en lögin Í Reykjavíkurborg, Dans dans, dans, Villi og Lúlla og Vegir liggja til allra átta hafa lifað einna lengst.

Strax um sumarið hafði verið unnið að því leynt og ljóst að koma tónlistinni á framfæri erlendis, upptökur höfðu verið sendar til London til að kanna áhuga þarlendra plötuútgáfufyrirtækja, og leiddi sú vinna til þess að enskar útgáfur voru gerðar af nokkrum lögum. Nafn sveitarinnar fyrir erlenda markaðinn varð einfaldlega You & I.

Í fréttum um haustið bárust þær fréttir að CBS hygðist gefa út litla tveggja laga plötu með Þú og ég á Norðurlöndunum og í kjölfarið spannst heilmikil fjölmiðlaumræða og ljóst samkvæmt henni að dúettnum væri ætlað stórt hlutverk á erlendum markaði, plötur myndu koma út í Skandinavíu, Bretlandi og Japan svo dæmi séu tekin. Kynningarplata, splitplata með Þú og ég og Dolly dots var gerð fyrir japanskar útvarpsstöðvar, og átti sjálfsagt nokkurn þátt í því að koma sveitinni á framfæri þar í landi síðar.

Í upphafi árs 1980 fóru aðilar á vegum Steinars hljómplötuútgáfu á Midem tónlistarráðstefnuna í Frakklandi til að kynna Þú og ég, og varð nokkuð ágengt. Í kjölfarið fluttu fjölmiðlar fréttir af því að plötur með sveitinni yrðu gefnar út í Austur-Evrópu og svo löndum Suður-Ameríku, þar með spænskum textum.

Gunnar Þórðarson, Helga Möller og Jóhann Helgason

Þar eð Ljúfa líf gekk svo vel í landann þótti eðlilegt að halda áfram eftir sömu forskrift, því var farið að vinna að annarri plötu sem átti að koma út um sumarið. Gunnar ákvað að gefa plötuna út sjálfur undir eigin útgáfumerki þar sem fyrri platan hafði selst svo vel.

Litlu plötunni sem átti að koma út á vegum CBS fyrir Skandinavíumarkað seinkaði en vinnan var þó farin að bera árangur, t.a.m. var dúettnum boðið að taka þátt í Sopot Intervision festival tónlistarhátíðinni sem fram átti að fara í ágúst 1980 en hún var hliðstæð Eurovision söngkeppninni, reyndar fyrir þjóðir Austur-Evrópu og nokkrar gestaþjóðir, þ.á.m. Ísland.

Nýja platan, Sprengisandur, kom út um mitt sumar. Sem fyrr voru hljóðfæraleikarar á plötunni erlendir utan Gunnars sjálfs, en hún var hljóðrituð í London eins og Ljúfa líf.

Þótt platan seldist vel, t.d. í um 3000 eintökum fyrstu vikuna, voru viðtökur gagnrýnenda ekki eins jákvæðar og við fyrri plötuna, hún fékk reyndar ágæta dóma í Tímanum en Morgunblaðið gaf henni slaka dóma sem og Jens Guðmundsson í Poppbókinni sinni. Lögin Á Sprengisandi, Sveitin milli sanda, Ég sakna þín og Í útilegu nutu hvað mestra vinsælda en eins og á Ljúfa líf leitaði Gunnar í smiðju eldri sígildra slagara í bland við eigin tónsmíðar.

Um miðjan ágúst héldu Þú og ég til Sopot í Póllandi til þátttöku í Intervision keppninni og gekk prýðilega þar, lenti í fjórða sæti og fékk í kjölfarið fjölmörg tækifæri og boð um þátttöku í sams konar keppnum og hátíðum. Umræðan um að Íslendingar tæku þátt í Eurovision keppninni fór á flug eftir þennan ágæta árangur en sex ár áttu eftir að líða þar til Íslendingar tóku þátt í þeirri keppni, þar var Helga Möller reyndar á ferð í Icy-tríóinu, sælla minninga.

Umslag snældu með upptökum frá Sopot ’80 keppninni

Tugir milljóna munu hafa fylgst með Intervision keppninni í Sopot, sem haldin hafði verið frá árinu 1961 en eftir þessa keppni sumarið 1980 varð hlé á að keppnin yrði haldin, ástæðan var eldfimt stjórnmálaástand í Póllandi en ólga var í landinu eftir að verkalýðsfélög höfðu verið stofnuð í óþökk stjórnvalda.

Þáttur með upptökum frá Intervision keppninni var sýndur í Ríkissjónvarpinu síðar um haustið, og einnig var gefin út snælda í tengslum við keppnina, sem m.a. hafði að geyma lag með Þú og ég. Til stóð að smáskífa með laginu Dance, dance, dance kæmi út í Póllandi en engar heimildir finnast um að sú útgáfa hafi litið dagsins ljós.

Og enn og aftur bárust fréttir af væntanlegum plötum með dúettnum á erlendum vetvangi, nú var talað um að tveggja laga plata væri að koma út með þeim í Bretlandi og Hollandi undir merkjum Hot Ice records sem Steinar hafði sett á stofn í Bretlandi. Og síðan kæmi út breiðskífa í Bretlandi og á Norðurlöndunum. Margar viðlíka fréttir birtust í íslenskum fjölmiðlum og síðar um haustið var það Japan sem var skotmarkið.

Japanir urðu reyndar sú þjóð sem Þú og ég virtust mest höfða til en auk fyrrgreindar split plötu var önnur kynningarplata gerð fyrir Japansmarkað, tveggja laga plata með lögunum My hometown og I want to be with you.

Eftir útgáfu Sprengisands komu Þú og ég fram á skemmtistöðum hér heima og kynntu plötuna fram eftir hausti þrátt fyrir að Jóhann væri nokkuð upptekin þar sem hann var þá einnig að gefa út plötu með fóstbróður sínum, Magnúsi Þór Sigmundssyni.

Þú og ég 1980

Fyrir jólin kom síðan út jólaplatan Í hátíðarskapi með lögum eftir Gunnar Þórðarson og þar var dúettinn heldur betur í aðalhlutverki. Þú og ég fluttu þar fjögur lög og nutu tvö þeirra mikilla vinsælda og eru reyndar enn spiluð og hafa fyrir löngu síðan komist í hóp vinsælustu jólalaga Íslandssögunnar. Annað þeirra var upphafsleg og titillag plötunnar, Hátíðarskap, og hitt er lagið Aðfangadagskvöld.

Lítið gerðist í útgáfumálum þeirra Helgu og Jóhanns næstu mánuðina annað en að fjölmiðlar fluttu reglulega fréttir af væntanlegum smáskífum erlendis. Það var svo ekki fyrr en um vorið 1981 sem smáskífan My hometown / Reykjavik kom út á Norðurlöndunum. Á þeirri plötu voru tvær útgáfur af laginu Í Reykjavíkurborg, á ensku og íslensku en hún var gefin út af CBS. Platan fékk fremur slakar viðtökur og seldist illa en varð þó til að þýskur útgefandi heyrði lagið og gaf það síðan út með söngkonunni Jessicu undir titlinum Zu hoch gespielt. Fáeinum mánuðum síðar kom það einnig út á finnsku með söngkonunni Armi, á því tungumáli kallaðist Í Reykjavíkurborg Kiitos sulle. Sænsk söngkona mun einnig hafa gert laginu skil en engar frekari upplýsingar finnast um þá útgáfu.

Um sumarið komu Þú og ég lítið fram opinberlega en fóru þó til Bandaríkjanna og sungu þar á Íslendingahátíð en Jóhann notaði tækifæri og tók upp sólóplötu (Tass) í Los Angeles.

En nú fóru hlutirnir að gerast hraðar, fyrsta „alvöru“ smáskífan leit dagsins ljós á Japans markaði um haustið 1981 með lögunum We are the love / Blue undir útgáfumerkjum Sweet donuts, og hún seldist ágætlega. Fyrsta upplagið (12.000 eintök) seldist fljótlega upp og þegar upp var staðið hafði hún selst í um 70 þúsund eintökum.

Þú og ég í Japan

Í kjölfarið kom breiðskífan You and I en hún kom út í Bretlandi, Japan og líkast til einnig Norðurlöndunum, á plötunni var að finna lög af Ljúfa líf og Sprengisandi en a.m.k. tvær útgáfur voru af umslagi hennar, mismunandi eftir löndum. Platan gekk best í Japan og seldist þar líklega í 20 – 30 þúsund eintökum. Engar upplýsingar er að finna um upplög eða sölutölur í öðrum löndum.

Í upphafi árs 1982 kom síðan út í Bretlandi tveggja laga smáskífa með lögunum Shady lady / I want to be with you en fyrrnefnda lagið var ensk útgáfa af laginu Í útilegu (af Sprengisandi) og fjallaði um Shady Owens fyrrverandi samstarfskonu Gunnars Þórðarsonar í Hljómum og Trúbroti.

Þú og ég áttu eftir að gefa út eina breiðskífu hér heima en sumarið 1982 kom hún út og bar titilinn Aðeins eitt líf. Platan, sem þá var sú dýrasta sem gefin hafði verið út hérlendis, seldist minnst platanna þriggja og fékk mjög slaka dóma í Tímanum, Poppbók Jens Guðmundssonar og DV, sæmilega í Helgarpóstinum en betri í Morgunblaðinu. Á henni voru þó nokkur lög sem fönguðu athygli landans, t.a.m. titillagið Aðeins eitt líf, Í kvöld og gamli slagarinn Don‘t try to fool me sem Jóhann G. Jóhannsson hafði samið og flutt nokkrum árum fyrr. Upptökur fóru sem fyrr fram í London undir stjórn Gunnars en Geoff Calver var upptökumaður, rétt eins og á fyrri plötum dúettsins.

Þú og ég höfðu starfað þarna nokkuð samfleytt frá árinu 1979 en þarna var komið að endalokum, það síðasta sem út kom með tvíeykinu var lagið Tonight (Í kvöld af plötunni Aðeins eitt líf, í enskri útgáfu) á safnplötunni Sprengiefni en það kom hvergi út annars staðar.

Þú og ég 1982

Tilraunir til frekari landvinninga erlendis voru ekki gerðar en þó er gaman að geta þess að sex árum síðar (1988) kom út splitplata (kynningarplata) þar sem Þú og ég deildu lögum með sænsku hljómsveitinni Europe en sú sveit er auðvitað kunnust fyrir stórsmellina The Final countdown og Carrie. Það ár kom reyndar þjóðhátíðarlagið Ég veit þú kemur út með dúettnum í nýrri útgáfu á safnplötu.

Þótt hér sé miðað við að Þú og ég hafi hætt störfum 1982, hafa þau Helga og Jóhann komið saman við ýmis tækifæri síðan, og m.a.s. gefið út jólalag (Ljós út um allt (2011)) sem þó fór ekki hátt, annað lag kom út á jólaplötu með Ragnari Bjarnasyni (2007). Þau komu t.d. fram 1986 á Broadway á tónlistarshowi, og árið 2009 í tilefni af 30 ára starfsafmælis þeirra.

Plötur Þú og ég hafa verið endurútgefnar en einnig kom út safnplata árið 2005 í útgáfuröðinni Brot af því besta, lög þeirra hafa ennfremur komið reglulega út á safnplötum s.s.  Útileguplata Pylsuparsins (2002), Tvær í takinu (1984), Á frívaktinni (1988), Jólasnær (1991), Pottþétt jól (1996), Rokk og jól (1990), Skógarjól (2000), Óskalögin 5 (2001), Pottþétt 70‘s (2001), Óskalögin 6 (2002), Aftur til fortíðar 70-80 I (1990), Pottþétt diskó (1998), Í sól og sumaryl (1995), Stjörnuplata 2 (1980), Með lögum skal land byggja (1985), Gæðapopp (1981) og Jólagleði (1982).

Efni á plötum