Afmælisbörn 9. febrúar 2018

Egill Ólafsson

Og enn eru það afmælisbörn dagsins á skrá Glatkistunnar:

Egill Ólafsson tónlistarmaður er sextíu og fimm ára. Hann er einn af þekktustu söngvurum þjóðarinnar og hefur sungið með mörgum af vinsælustu hljómsveitunum, þar má nefna Spilverk þjóðanna, Stuðmenn og Þursaflokkinn en hann hefur einnig sungið með minna þekktum sveitum eins og 3to1, Tamlasveitinni, Scream og Andrew svo fáein dæmi séu tekin. Egill hefur gefið út sólóplötur, þar af eina nú nýlega, sungið á óteljandi plötum annnarra listamanna, og leikur á fjölmörg hljóðfæri svo sem bassa og píanó.

Rapparinn Opee (Ólafur Páll Torfason) er þrjátíu og fjögurra ára gamall, hann var einn af Quarashi liðunum auk þess að starfrækja rappdúetinn O.N.E. ásamt Eternity (Eilífi Erni Þrastarsyni) en hefur aukinheldur unnið með mörgum öðrum röppurum eins og títt er um þá.

Jón Sen fiðluleikari (1924-2007) hefði einnig átt þennan afmælisdag, hann lærði á fiðlu í Bretlandi og lék með Íslensk-ameríska kvartettnum víða um lönd. Jón, sem var fæddur í Kína, var einnig í Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands, var m.a. konsertmeistari um tíma. Hann kenndi á fiðlu við Tónlistarskólann í Reykjavík.