Hljómsveit Magnúsar Péturssonar (1953-73)

Hljómsveit Magnúsar Péturssonar 1964

Píanóleikarinn Magnús Pétursson frá Akureyri starfrækti nokkrar hljómsveitir um ævi sína en sumar þeirra virðast hafa verið settar saman einvörðungu fyrir plötuupptökur, aðrar léku á skemmtistöðum höfuðborgararinnar.

Fyrsta sveitin sem starfaði í nafni Magnúsar var í Keflavík árið 1953 en því miður eru heimildir um þessa sveit af skornum skammti. Sveitin lék mestmegnis í Bíókaffi í Keflavík en líklega einnig á öðrum stöðum í Keflavík. Vitað er að Grétar Oddsson söng með sveitinni um tíma en ekkert annað liggur fyrir um þessa sveit nema að Magnús hljómsveitarstjóri lék á píanó.

Árið 1954 starfrækti Magnús tríó í sveitin nafni sem lék undir söng Leikbræðra á 78 snúninga plötu sem Tónika gaf út. Með Magnúsi á þeirri plötu léku Eyþór Þorláksson gítarleikari og Erwin Koeppen bassaleikari en allar líkur eru á að tríóið hafi verið sett saman eingöngu fyrir þessa plötu því um sama leyti lék hljómsveit í hans nafni á plötu með Gesti Þorgrímssyni sem hafði að geyma m.a. lagið Á Lækjartorgi en það naut nokkurra vinsælda, sú sveit var skipuð þeim Birni R. Einarsssyni harmonikkuleikara, Jóni Sigurðssyni kontrabassaleikara og Gunnari Egilson klarinettuleikara auk Magnúsar. Tvær plötur í viðbót komu út með hljómsveit Magnúsar þetta sama ár þar sem Öskubuskur, Björn R. Einarsson og Gunnar Egilson sungu en upplýsingar um hljómsveitarmeðlimi eru ekki til staðar. Allar plöturnar fjórar komu út á vegum útgáfufyrirtækisins Tónika.

Svo virðist sem Magnús hafi ekki starfrækt sveit næstu misserin, reyndar lék hljómsveit í hans nafni í útvarpsþætti árið 1957 en það gætu hafa verið eldri upptökur. Þar var svo árið 1960 sem hin eiginlega hljómsveit Magnúsar Péturssonar tók til starfa en hún starfaði mest í Lídó, ekki er ljóst hverjir léku með honum þarna nema að trommuleikari sveitarinnar var Guðmundur R. Einarsson – Ragnar Bjarnason söng eitthvað með sveitinni en erlendar söngkonur voru þar í aðal hlutverki.

Það sama ár (og 1961) lék hljómsveit Magnúsar á fjórum plötum sem útgáfufyrirtækið Íslenzkir tónar gaf út í samstarfi við Dansskóla Hermanns Ragnars Stefánssonar en plöturnar gengu undir nafninu Boðið upp í dans. Á fyrstu plötunni var tríó Magnúsar sem lék undir söng stúlknakórs úr Melaskóla en á hinum plötunum þremur er talað um hljómsveit Magnúsar. Sveit (tríó) Magnúsar lék jafnframt á nemendasýningum dansskólans um skeið. Árið 1961 lék tríó Magnúsar í Leikhúskjallaranum en þar er líklega um sömu sveit og lék á Boðið upp í dans – plötunum en engar upplýsingar er að finna um meðlimi sveitarinnar.

Hljómsveit Magnúsar og Vala Bára

Nokkur bið varð á að næsta sveit Magnúsar liti dagsins ljós en það var sumarið 1963, Magnús hafði þá verið í Neo tríóinu en þegar sú sveit hætti skyndilega héldu þeir Magnús og Karl Lilliendahl gítarleikari áfram samstarfinu við þriðja mann undir nafninu Tríó Magnúsar Péturssonar, þriðji meðlimurinn var líklega Hrafn Pálsson bassaleikari og er líklegt að hann hafi séð um sönginn í sveitinni. Danska söngkonan Solveig Björnsson söng með sveitinni fram á haustið en þá var tríóið stækkað í kvartett þar sem Sveinn Óli Jónsson trommuleikari bættist í hópinn, söngkonurnar Bertha Biering og Mjöll Hólm sungu með sveitinni sem var húshljómsveit í Klúbbnum til áramóta 1964-65. Hún virðist svo hafa tekið til starfa aftur snemma árs 1966 og lék fram á vorið í Klúbbnum og var Valgerður Bára Guðmundsdóttir þá söngkona sveitarinnar sem þá var aftur tríó. Um haustið starfrækti Magnús Leikhúskvartettinn en um hann er fjallað sér.

Hljómsveit Magnúsar átti eftir að birtast á nýjan leik og leika gömlu dansana á Hótel Borg sumarið 1968, Erla Traustadóttir söng þá með þeim félögum og svo Linda Walker – sú sveit hætti störfum um haustið en starfaði svo í stuttan tíma aftur haustið 1969. Einnig mun Rúnar Guðjónsson einhvern tímann hafa starfað með hljómsveit Magnúsar.

Magnús átti ekki eftir að starfrækja hljómsveit aftur en sveit í hans nafni var þó sett saman fyrir tvær plötuupptökur 1972 og 1973 en þar voru á ferð annars vegar fjögurra laga plata Hönnu Valdísar Guðmundsdóttur sem m.a. hafði að geyma lagið um Línu Langsokk, hins vegar fjögurra laga plata Sólskinskórsins sem Magnús stjórnaði reyndar en á þeirri plötu má m.a. heyra stórsmellinn Sól sól skín á mig. Engar upplýsingar er þó að finna um hverjir skipuðu hljómsveit Magnúsar á þeim skífum.

Efni á plötum