Afmælisbörn 22. maí 2018

Hafdís Huld

Afmælisbörn dagsins á Glatkistunni eru fimm talsins að þessu sinni:

Eva Ásrún Albertsdóttir söngkona er fimmtíu og níu ára. Þótt hún hafi lengstum verið þekktust sem bakraddasöngkona hefur hún sungið með fleiri hljómsveitum en marga grunar, þar má nefna Brunaliðið, Smelli, Chaplin, Módel, Snörurnar og svo í þríeykinu Ernu, Evu, Ernu. Einnig hefur Eva Ásrún sungið ófá lög í undankeppnum Eurovision í gegnum tíðina, og svo bakraddir í framlögum Íslendinga í aðalkeppni Eurovision.

Hafdís Huld (Þrastardóttir), önnur söngkona á einnig afmæli í dag en hún er þrjátíu og níu ára á þessum degi. Hún vakti fyrst athygli í fjöllistahópnum Gus Gus en hóf síðan sólóferil og hefur gefið út fimm sólóplötur, þar af tvær sem einkum eru ætlaðar börnum. Hafdís Huld hefur mestmegnis starfað í Bretlandi en býr nú á Íslandi.

Albert Finnbogason söngvari og gítarleikari er tuttugu og níu ára í dag. Hann hefur leikið með hljómsveitum á borð við Grísalappalísu, Heavy experience, Mors, Noose, Skelkur í bringu, Swords of kaos og Big Kahuna svo einhverjar séu hér nefndar.

Þá á Ingveldur Hjaltested óperusöngkona afmæli í dag en hún er áttatíu og fjögurra ára gömul. Hún nam söng að mestu hér heima en einnig í Bretlandi og Þýskalandi. Ingveldur starfaði þó nánast eingöngu hér heima, söng fjölda óperuhlutverka og á fjölmörgum tónleikum sem einsöngvari og með kórum, og hefur jafnframt sungið inn á nokkrar plötur, þar af tvær einsöngsplötur.

Síðastan skal hér telja Brynjólf Þorláksson organista sem einnig hefði átt afmæli á þessum degi. Hann fæddist 1867 á Snæfellsnesi, flutti til höfuðborgarsvæðisins og starfaði sem organisti, kórstjórnandi og tónlistarkennari en auk þess stofnaði hann fjölmarga kóra og sönghópa. Hann fluttist síðan til Kanada þar sem hann vann mikið og merkilegt tónlistarstarf meðal Vestur-Íslendinga, þar bjó hann í tuttugu ár áður en hann sneri aftur heim til Íslands. Brynjólfur lést 1950.