Big nós band (1982-83)

Big nós band

Big nós band var ekki eiginleg hljómsveit heldur aukasjálf Pjeturs Stefánssonar tónlistar- og myndlistamanns en hann hóaði saman í hljómsveit þegar kom að því að gefa út plötu.

Sveitin sem var stofnuð snemma árs 1982 kom a.m.k. tvisvar fram undir nafninu Stockfield big nose band, m.a. á Melarokki en þegar platan kom út hafði því verið breytt í Big nós band.

Auk Pjeturs sem söng og lék á gítar voru upphaflega í sveitinni Halldór Bragason bassaleikari, Sigurður Hannesson trommuleikari og Björgvin Gíslason gítarleikari. Tryggvi Hübner gítarleikari kom síðar einnig við sögu hennar.

Lítið heyrðist til sveitarinnar um veturinn en vorið 1983 birtist plata með sveitinni sem bar heitið Tvöfalt siðgæði en hún var jafnframt hluti af grafísku verkefni sem Pjetur var þá að vinna í Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Þeir félagar höfðu sér til fulltingis nokkra aðstoðarmenn s.s. Pétur Hjaltested hljómborðsleikara og söngkonurnar Öllu Borgþórs og Ellu Magg. Platan fór ekki hátt en hlaut þó ágæta dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Þjóðviljanum og Poppbók Jens Guðmundssonar.

Ekki varð um frekara samstarf þeirra félaga að ræða undir Big nós band nafninu en þeir áttu eftir að vinna saman síðar á plötum Pjeturs undir merkjum PS&CO, auk annarra tónlistarlistamanna.

Efni á plötum