Bimbó tríó (1962-65)

Bimbó tríó

Bimbó tríó var unglingasveit starfandi á Selfossi og nágrenni, á árunum 1962 til 65 og var lengst af það sem kallað var gítarhljómsveit í anda The Shadows enda kölluðu þeir sig upphaflega Skugga.

Meðlimir sveitarinnar voru Ólafur Þórarinsson gítarleikari, Guðmundur Benediktsson gítarleikari og Kristján Jens Kristjánsson trommuleikari en þeir voru aðeins 11 og 12 ára gamlir í byrjun. Þorvaldur Guðmundsson átti svo eftir að taka við á trommunum af Kristjáni á einhverjum tímapunkti.

Bimbó tríó lék mestmegnis opinberlega þegar þeir hituðu upp fyrir aðrar stærri sveitir á böllum fyrir austan fjall, og þurftu þá til þess sérstakt leyfi enda svo ungir að árum. Sveitin kom reyndar einnig fram á tónleikum í Austurbæjarbíói 1963 þegar hún ásamt fleiri sveitum hitaði upp fyrir dönsku sveitina Telstar en þá lék Björn Þórarinsson eldri bróðir Ólafs á bassa með sveitinni sem alla jafna var bassaleikaralaus. Sveitin varð jafnvel svo fræg að leika í útvarpinu.

Hljómsveitin Mánar mun hafa verið stofnuð upp úr Bimbó tríói vorið 1965.