Bimbó tríó (1962-65)

Bimbó tríó

Bimbó tríó var unglingasveit starfandi á Selfossi eða nágrenni, líklega á árunum 1962 til 65.

Meðlimir sveitarinnar voru Ólafur Þórarinsson gítarleikari, Guðmundur Benediktsson gítarleikari og Kristján Jens Kristjánsson trommuleikari, að líkindum var Þorvaldur Guðmundsson trommuleikari sveitarinnar á einhverjum tímapunkti. Líklegt er að um hafi verið að ræða svokallaða Shadows-sveit, þ.e. að hún hafi leikið instrumental gítarrokk í anda Shadows.

Bimbó tríó kom m.a. fram á tónleikum í Austurbæjarbíói 1963 þegar hún ásamt fleiri sveitum hituðu upp fyrir dönsku sveitina Telstar, en einnig hitaði sveitin upp fyrir aðrar sveitir á böllum fyrir austan fjall.

Hljómsveitin Mánar mun hafa verið stofnuð upp úr Bimbó tríói árið 1965.