Birds (1987-88)

Birds ásamt öðrum aðstandendum sýningarinnar Allt vitlaust

Hljómsveitin Birds (Fuglar) var sett á stofn fyrir tónlistarsýninguna Allt vitlaust, sem sýnd var á Broadway árið 1987.

Það voru þeir Björn Thoroddsen gítarleikari, Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari, Gunnlaugur Briem trommuleikari, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, Rúnar Georgsson og Stefán S. Stefánsson saxófónleikarar og Gunnar Þórðarson gítarleikari sem skipuðu Birds en Gunnar var jafnframt hljómsveitarstjóri. Söngvarar í sýningunni voru Björgvin Halldórsson, Eiríkur Hauksson, Eyjólfur Kristjánsson og Sigríður Beinteinsdóttir.

Sýningin fór í loftið í febrúar 1987 og var sýnd fyrir fullu húsi fram á vor og svo aftur veturinn eftir, þá voru einnig nokkrar sýningar norðan heiða. Fljótlega á nýju ári var farið með Allt vitlaust á Hótel Ísland og þá voru einnig gerðar breytingar á skipan sveitarinnar og söngvara, Björn Thoroddsen tók við af Gunnari sem hljómsveitarstjóri og Felix Bergsson kom inn í stað Eyjólfs Kristjánssonar.

Sýningum á Allt vitlaust lauk sumarið 1988.