Bisund (1997-99)

Bisund

Hljómsveitin Bisund var nokkuð áberandi í harðkjarnasenunni í kringum aldamótin en hún vakti fyrst athygli í Músíktilraunum 1998.

Bisund var stofnuð haustið 1997 og fáeinum mánuðum síðar eða vorið 1998 birtist sveitin í Músíktilraunum Tónabæjar. Meðlimir hennar voru þá bræðurnir Andri Freyr Viðarsson gítarleikari og Birkir Fjalar Viðarsson trommuleikari, Ragnar Freyr Magnússon bassaleikari og Agnar Eldberg Kofoed Hansen söngvari. Birkir hafði komið inn síðastur en hinir þrír stofnað sveitina. Í kynningu á sveitinni í Morgunblaðinu var sveitin sögð vera úr Reykjavík og Garðabæ en Andri og Birkir voru þá reyndar nýfluttir á höfuðborgarsvæðið frá Reyðarfirði.

Í Músíktilraunum komst sveitin í úrslit og hafnaði reyndar í öðru sæti þar, Birkir var kjörinn besti trymbill tilraunanna það árið.

Bisund spilaði hart rokk en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig það var skilgreint, hún átti nokkra samleið með Mínus sem þá var að vekja athygli og sveitirnar spiluðu oft saman ásamt fleirum í þessari rokksenu.

Sagan segir að split-demóplata hafi komið út með Bisund og Mínus en engar frekari upplýsingar finnast um þá plötu. Þá átti Bisund efni á safnplötunum Rock from the cold seas (1999), msk (1999) og Pönkið er dautt (2000) en á síðast nefndu plötunni er að finna upptökur úr Norðurkjallara MH þar sem sveitin spilaði snemma árs 1998.

Sveitin hætti haustið 1999 en kom reyndar saman í eitt skipti sléttu ári síðar.