Ljóð um þig

Ljóð um þig
(Lag / texti: Bjartmar Guðlaugsson)

Sumir brosa sjaldan,
aðrir bara nokkuð oft.
Þú liggur bara þarna
og hissa gónir upp í loft.
Þessi risastóru andlit
sem alltaf eru að geifla sig.
Þau heyra til því sómafólki
sem á að fæða og klæða þig.

Þú heyrir skrýtnar raddir.
Þær skammast út af pólitík.
Og aðrar sem að spá í
hverjum þú sért annars lík.
Þá margir eru nefndir,
já napurlegt ef satt það er
að maður fæðist inn í heiminn
ekki vitund líkur sjálfum sér.

Viðlag
Alveg eins og afi sinn,
bísperrtur montrassinn.
Það er nú ekki sem verst.
Hann skopast að sjálfum sér
lætur allt eftir þér.
Sem þér þykir best.

Frá munni fólksins orðin
flæða inn í eyru þín.
Þú reynir þau að nema
úr augum eftirvænting skín.
Því er betra að fela
það sem þú mátt ekki sjá.
Þú ferð víst nógu snemma að skilja
allt það sem hér ekki má.

Viðlag

Brostu nú, pínulitla stelpuskott.
Sendu nú, veröldinni tannlaust glott.
Brostu nú, og sannaði það fyrir mér
að maður fæðist inn í heiminn,
soldið líkur sjálfum sér.

[af plötunni Bjartmar Guðlaugsson – Með vottorð í leikfimi]