Sumarliði á móti

Sumarliði á móti
(Lag / texti: Bjartmar Guðlaugsson)

Þegar Sumarliði flutti hér í götuna
og byrjaði að þvo og bóna Löduna,
dásemdin og léttleikinn sem hérna hafði ríkt
roluskapur nefnist nú og sambúðin er sýkt.

Meðan frúin svælir Raleigh og spáir í sín spil,
Sumarliði skúrar allt og þvær og tekur til.
Taumlaus er hans atorka og allt hann gerir vel
og okkur hér í götunni er hreint ekki um sel.

Viðlag
Hann Sumarliði á móti
er með taugakerfi úr grjóti.
Hann Sumarliði á móti
er með taugakerfi úr grjóti.

Sumarliði þvær og bónar brosandi og sæll,
setur niður kartöflur og vinnur eins og þræll.
Þörfin fyrir snyrtimennsku er honum færð að gjöf
við fæðingu og fylgir honum þar til lokast gröf.

Í innkeyrslunni raðar gaurinn grjóti voða pent,
teppaleggur tröppurnar og klippir allt í tvennt.
Í frístundum hann bróderar og saumar á sín börn,
dröslar þeim í þrjúbíó og síðan niðrá tjörn.

Viðlag

Sko, nú skríður hann, nú dansar hann
eingöngu til að frúin gefi bros.
Nú eldar hann, nú straujar hann,
já maturinn hjá Sumarliða er sko ekkert tros.

Sko, nú skríður hann, nú jarmar hann,
eingöngu til að börnin borði mat.
Nú baular hann, nú geltir hann,
já uppeldið hjá Sumarliða er sko ekkert hrat.

Viðlag

Þegar Summi karlinn flutti hér í götuna
og byrjaði að fínesera Löduna,
dásemdin og léttleikinn sem hérna hafði ríkt
roluskapur nefnist nú og sambúðin er sýkt.

Viðlag

[af plötunni Bjartmar Guðlaugsson – Ef ég mætti ráða]