Þjóðhagslega hagkvæmur

Þjóðhagslega hagkvæmur
(Lag / texti: Bjartmar Guðlaugsson)

Fulltrúi framkvæmdastjóra rís upp við dogg,
dragskakkur almúgur undrandi gerir það líka.
Útfríkað ungviðið heimtar mat í sinn gogg
og forystugreinarnar spjalla um blanka og ríka.

Spæld eru eggin, harðsoðin, sum étin hrá,
fulltrúinn fílar sig graðann og þjónustar kviðinn.
Ristaðar brauðsneiðar fljúga um heiðloftin blá
og andfýlan mettar morgunloftið og miðin.

Viðlag
Hann er hagkvæmur, hann er hagkvæmur,
hann er orðinn þjóðhagslega hagkvæmur.

Fulltrúi fjármálavaldsins ýtir á hnapp
og skermurinn skilar því til hans hverjum þú skuldar.
En sjálfur hann flekklaus í gegnum eldana slapp,
en heima hjá þér eru myglaðar brauðsneiðar muldar.

Viðlag

Fulltrúi fulltrúa forstjóra er fullkomin blanda,
því hann þarf að þjónusta þróttmiklum herrunum tveim.
Og svo er hann sendur í sukkferð til annarra landa
og reikningar hans koma fljúgandi í hraðpósti heim.

Viðlag

[af plötunni Bjartmar Guðlaugsson – Venjulegur maður]