Kór sá sem yfirskriftin hér að ofan vísar til var líkast til aldrei starfandi en var settur saman fyrir hljómplötuupptöku árið 1933 en þá voru upptökumenn á ferð hérlendis frá Columbia líkt og gert hafði verið þremur árum fyrr, fyrir Alþingishátíðina. Sigurður Þórðarson stjórnaði þessum áttatíu manna kór.
Uppistaðan í karlaröddum þessa blandaða kórs kom líklega úr Karlakór Reykjavíkur sem Sigurður stjórnaði og hafði gert síðan hann var stofnaður (1926). Engar heimildir er hins vegar að hafa um hvaðan kvenraddir kórsins komu.
Alls komu út fimm 78 snúninga plötur á vegum Fálkans með kórnum með samtals tíu lögum en Karlakór Reykjavíkur syngur reyndar tvö þeirra og Karlakórinn Vísir á Siglufirði eitt.
Meðal platnanna fimm hefur ein þeirra að geyma þjóðsöng Íslendinga, Ó, guð vors land auk Ó, guð, þú sem ríkir. Sú plata var endurútgefin á 45 snúninga plötu árið 1961 og svo aftur 1966, í hreinsaðri og endurbættri útgáfu eins og auglýst var.