Bleeding volcano (1991-93)

Bleeding volcano

Hljómsveitin Bleeding volcano var stofnuð snemma árs 1991 upp úr annarri sveit Boneyard, og með einhverjum mannabreytingum en sveitin var í blaðagrein sögð vera sprottun upp úr tónlistarlegum ágreiningi innan Boneyard.

Aðalsprauta Bleeding volcano var Hallur Ingólfsson trommuleikari en auk hans voru í sveitinni í upphafi Sigurður Gíslason gítarleikari, Guðmundur Þórir Sigurðsson bassaleikari og Vilhjálmur Goði Friðriksson Brekkan söngvari. Sveitin var um tíma nokkuð áberandi í tónleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu en hún lék rokk í þyngri kantinum.

Bleeding volcano hélst illa á gítarleikurum og um haustið auglýstu þeir félagar eftir slíkum, Hróbjartur Róbertsson kom þá inn í sveitina og lék á gítar í henni í um ár en hætti um það leyti sem þeir fóru að vinna að upptökum á plötu. Það varð úr að Hallur trommuleikari lék á gítar í upptökunum.

Bleeding volcano 1992

Sigurður Kristinsson tók sæti Hróbjarts og lék með sveitinni m.a. á tónleikum tengdum útgáfu plötunnar Damcrack sem kom út um haustið. Þar var um að ræða þrettán laga plötu með lögum eftir Hall. Sveitin gaf plötuna sjálf út og hlaut hún fremur litla athygli. Dómar um hana birtust þó í fjölmiðlum, fékk hún ágæta dóma í Degi og Vikunni en varla nema sæmilega í Pressunni.

Bleeding volcano starfaði ekki lengi eftir útgáfu plötunnar, hætti líklega störfum fljótlega eftir áramótin 1992-93.

Efni á plötum