
Brúar „tríóið“
Takmarkaðar heimildir er að finna um tríó sem kennt hefur verið við Brú í Hrútafirði og var einfaldlega kallað Brúartríóið.
Meðlimir þess í upphafi og lengi vel voru Gunnar Ó. Kvaran harmonikkuleikari, Helgi Steingrímsson gítarleikari og Þórir Steingrímsson trommuleikari en þeir Helgi og Þórir voru bræður. Þeir byrjuðu að leika saman árið 1960 en Þórir og Gunnar voru þá nýfermdir – ein heimild segir reyndar að tríóið hafi jafnvel verið stofnað 1957 en hugsanlega var það skólahljómsveit í Reykjaskóla sem þróaðist yfir í Brúartríóið. Brúartríóið starfaði líklega til haustsins 1962 en þá voru auk bræðranna í sveitinni þeir Örvar Kristjánsson harmonikuleikari og Jón Þorsteinsson gítarleikari.
Tríóið lék mestmegnis í heimabyggð en einnig eitthvað í nágrannasýslunum, t.d. munu þeir félagar hafa flogið norður í Trékyllisvík á Ströndum til að leika þar á dansleik í félagsheimilinu Árnesi en einnig léku þeir á Hótel Blönduósi um tíma undir það síðasta sem sveitin starfaði.


