Vagnsbörn (1991-)

Vagnsbörn að vestan

Vagnsbörn (einnig nefnd Vagnsbörnin að vestan) er hópur systkina frá Bolungarvík sem sent hefur frá sér tvær plötur, en hluti hópsins kom einnig að jólaplötu (margmiðlunardiski) fyrir börn.

Systkinin voru sjö að tölu og höfðu öll komið að tónlist með einum eða öðrum hætti – fjögur þeirra, Haukur, Pálína, Soffía og Hrólfur þó sínu mest þar sem þau hafa gert tónlistina mikið til að ævistarfi sínu en hin þrjú, Þórður, Ingibjörg og Margrét hafa haft hana meira í hjáverkum. Vagnsbörn hafa þannig verið áberandi í vestfirsku tónlistarlífi (og víðar) í gegnum tíðina, með hljómsveitum eins og Mímósu, Prósent, Tríói Ólafs ósýnilega, Tóniku, Kan, Neyðinni og Septu en auk þess hafa þau komið við sögu á fjölda útgefinna platna sem flytjendur og annað, þá hefur Hrólfur m.a. starfað sem upptökumaður, útgefandi o.fl. og Soffía m.a. við tónlistarskólastjórnun og ýmislegt tengt tónlistar- og menningarmálum.

Faðir þeirra Vagnsbarna, Vagn Margeir Hrólfsson var með tónlistina í blóðinu og lék á harmonikku þótt aldrei hefði hann farið í formlegt tónlistarnám. Þegar hann lést í sjóslysi í Ísafjarðardjúpi rétt fyrir jólin 1990 ásamt Gunnari Erni Svavarssyni (sem þótti liðtækur gítarleikari) tengdasyni sínum (eiginmanni Margrétar) ákváðu þau systkini að heiðra minningu þeirra með útgáfu plötunnar Hönd í hönd: Uppáhaldslögin hans pabba.

Platan kom út 1991 á vegum útgáfufyrirtækis þeirra sjálfra (Septu) og hafði að geyma fimmtán lög sem höfðu verið í uppáhaldi Vagns en þau systkinin önnuðust söng og tónlistarflutning að langmestu leyti sjálf. Hönd í hönd var tekin upp í Hannover í Þýskalandi þar sem Hrólfur átti hljóðver en ágóðinn af sölu plötunnar rann til SVFÍ (Slysavarnafélags Íslands). Skemmst er frá því að segja að fyrsta upplag plötunnar, tíu þúsund eintök seldust á fyrsta degi og þegar upp var staðið hafði hún selst í tuttugu og fjögur þúsund eintökum og þrjú þúsund eintökum að auki í Færeyjum þar sem hún var einnig seld, og hefði hún jafnvel getað selst mun meira hefðu fleiri upplög verið gerð af henni. Platan seldist upp og enn eru þau systkinin spurð um hana.

Þremur árum síðar sendu Vagnsbörn frá sér aðra plötu undir svipuðum formerkjum, samansafn gamalla slagara sem voru í uppáhaldi fjölskyldunnar. Platan var einnig tekin upp í Þýskalandi (vorið 1993) eins og hin fyrri og gáfu þau hana sjálf út undir Septu-merkinu. Platan, sem kom út á vínyl- og geislaplötuformi vakti ekki eins mikla athygli og sú sem komið hafði út 1991 enda kom nú SVFÍ hvergi nærri dreifingu og sölu á henni og því var upplagið bæði mun minna og seldist því einnig mun minna. Þessi plata hlaut titilinn Vagg og velta með Vagnsbörnum að vestan. Sem fyrr sáu þau systkinin að mestu um tónlistarflutninginn sjálf en höfðu þó nokkra erlenda tónlistarmenn sér til aðstoðar.

Hér er í raun upptalið það sem viðkemur nafninu Vagnsbörn en árið 1996 kom út á vegum útgáfufyrirtækis Hrólfs Vagnssonar, Cord Aria, platan Litli jóladiskurinn sem var margmiðlunardiskur með margs konar efni fyrir börn, tengt jólunum. Litli jóladiskurinn var fyrsti slíki margmiðlunardiskurinn sem gefinn var út hérlendis sérstaklega með börn í huga og á honum var að finna margvíslegt efni fyrir börn s.s. upplestur á jólasögu, upplýsingar um jólasveina, uppskriftir og síðan tvö lög, Desember og Sprellifandi enn, sungin og ósungin en þau voru eftir Hrólf og með texta eftir Soffíu. Fimm Vagnsbarna, Pálína sem söng annað laganna, Soffía, Haukur og Þórður sem önnuðust raddir og Hrólfur sem sá um hljóðfæraleikinn að mestu komu við sögu plötunnar og er hún því með í þessari umfjöllun og upptalningu. Þess má geta að diskurinn var nokkru minni en hefðbundinn geisladiskur, eða átta cm í þvermál og höfðu þau Hrólfur, Haukur og Soffía sent efnið á milli sín með tölvupósti á meðan þau unnu það hvert í sínu landi, Hrólfur í Þýskalandi, Haukur í Bandaríkjunum og Soffía hér heima á Íslandi. Það þótti nokkuð merkilegt á þeim tíma.

Efni á plötum