XD3 (1991-2003)

XD3 ásamt Ragnhildi Rós Indriðadóttur

Hljómsveitin XD3 var um tíma áberandi í tónlistarlífinun á Héraði en sveitin starfaði í á annan áratug.

Sveitin var stofnuð að öllum líkindum 1991 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Gunnlaugur Ólafsson gítarleikari, Jónas Þór Jóhannsson harmoniikkuleikari og Ragnar Þorsteinsson trommuleikari.

Segja má að XD3 hafi haldist fremur illa á gítarleikunum en tveimur árum eftir að sveitin var stofnuð (1993) hætti Gunnlaugur og tók Sigurður H. Sigurðsson við af honum en staldraði aðeins við í um eitt ár, þá kom Jón Kristófer Arnarson gítarleikari til sögunnar.

Árið 1996 annaðist XD3 undirleik í dægurlagakeppni Harmonikufélags Héraðsbúa og voru þau tólf lög sem kepptu til úrslita gefin út á plötunni Í skýjunum en upptökur fóru fram um vorið í Valaskjálf á Egilsstöðum. Harmonikkuleikarinn Tatu Kantomaa var sveitinni til fulltingis á plötunni.

Þetta sama ár kom enn einn gítarleikarinn til sögunnar í sveitinni en Bjarni Þór Sigurðsson tók þá við af Jóni Kristófer, þannig skipuð komu út þrjú lög með XD3 á safnplötunni Í laufskjóli greina sem gefin var út í tilefni af hálfrar aldar afmælis Egilsstaðabæjar. Þá lék sveitin einnig inn á tíu laga plötu sem gefin var út í tilefni af afmælishátíð Egilsstaðabæjar en þau lög voru úr lagakeppni sem haldin var í tengslum við þau hátíðarhöld. Platan bar titilinn Bærinn okkar: afmælislagakeppni 1997, eftir sigurlaginu í keppninni en höfundur þess var Hreinn Halldórsson. Á plötunni virðast meðlimir sveitarinnar vera Bjarni Þór, Jónas Þór, Ragnar, Gréta Sigurjónsdóttir gítarleikari (Dúkkulísurnar o.fl.) og Ármann Einarsson hljómborðsleikari og blásari.

Tvennum sögum fer af XD3 eftir 1997, hún var sögð hafa hætt það ár en heimildir finnast hins vegar um hana þótt í takmörkuðum mæli sé, frá árinu 1998, 2001 og 03. Ekki liggur þó fyrir hverjir skipuðu hana þá.

Efni á plötum