Afmælisbörn 6. mars 2019

Árni úr Eyjum

Fjögur tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi

Árni Guðmundsson (Árni úr Eyjum) f. 1913 átti þennan afmælisdag, hann var fyrst og fremst texta- og ljóðaskáld og samdi marga kunna texta við lög Oddgeirs Kristjánssonar. Þar má nefna lögin Góða nótt, Vor við sæinn, Ágústnótt, Blítt og létt og Bjartar vonir vakna. Árni lést 1961 aðeins 48 ára gamall.

Ingólfur Guðbrandsson (f. 1923) stofnandi og stjórnandi Pólýfónkórsins hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2009. Ingólfur lærði söng, kóra- og hljómsveitastjórnun í Bretlandi og síðar á Ítalíu og í Þýskalandi. Hann stofnaði Pólýfónkórinn 1957 og stýrði honum til æviloka. Ingólfur hlaut margs konar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna og fálkaorðuna.

Jón Nordal tónskáld er níutíu og þriggja ára gamall í dag. Jón nam fyrst hér heima á píanó auk tónsmíða, héðan lá leið hans til Sviss og annarra landa áður en hann kom aftur heim seint á sjötta áratugnum. Jón hafði orðið fyrir áhrifum módernískra tónskálda og hér heima stefndi hugurinn að nokkru í þá átt, hann varð einn stofnenda Musica Nova. Fjölbreytni hefur einkennt tónsmíðar Jóns en hann hefur samið kóraverk, hljómsveitaverk, kammerverk, einsöngslög og einleiksverk fyrir hin ýmsu hljóðfæri.

Þorsteinn Aðalbjörnsson trommuleikari Rekkverks er fjörutíu og fimm ára gamall í dag. Hann hefur leikið með ýmsum hljómsveitum á sínum ferli s.s. Frk. Júlíu, Munkum í meirihluta, Írafári, Sex appeal, Rekkverk, Dægurlagakombóinu og mörgum fleirum.