Þyngdaraflið krufið

Meistarar dauðans – Lög þyngdaraflsins
Askur games AG 002, 2018

 

 

Tríóið Meistarar dauðans sendi árið 2015 frá sér tíu laga plötu samnefnda sveitinni og vakti hún töluverða athygli og aðdáun þó ekki væri nema fyrir það hversu ungir meðlimir þess voru en yngsti meðlimur sveitarinnar, trymbillinn Þórarinn Þeyr Rúnarsson var þá einungis tólf ára gamall. Nú þremur árum síðar er Þórarinn orðinn fimmtán ára gamall og hinir meðlimirnir tveir, Ásþór Loki söngvari og gítarleikari (og bróðir Þórarins) og Albert Elías Arason bassaleikari rétt tæpra tvítugir og átján ára. Engu að síður eru þremenningarnir nú orðnir hoknir af átta ára spilareynslu en sveitin var stofnuð árið 2011.

Nú í haust kom út önnur plata Meistara dauðans en hún ber titilinn Lög þyngdaraflsins, sem vel að merkja er frábær titill á rokkplötu en þar er að auki skírskotað til Isaac Newton sem prýðir einmitt umslag plötunnar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá síðustu plötu sveitarinnar og þó ekki, sveitin hefur tekið miklum þroskamerkjum, lagasmíðar og þá sérstaklega textar eru nefndir í því samhengi og jafnframt því hafa þeir félagar tekið framförum við hljóðfærasláttinn, vel þétt band og samhæft. Þá má kannski segja að mestu breytingarnar á þeim þremur árum sem liðin eru frá fyrri plötu sveitarinnar sé rödd Ásþórs Loka en hann er að breytast í hörku rokksöngvara. Hann bregður einnig fyrir sig mýkri hliðinni og þá mætti  hæglega ruglast á honum og sjálfum Helga Björns í laginu Afsakið hlé þannig að hann kemur víða við í raddbeitingu sinni.

Tónlistin er í grunninum sú sama, rokk í þyngri kantinum sem hefur þó ekki glatað ferskleikanum sem óneitanlega fylgir æskuljóma þeirra félaga og þeir leyfa sér að fara víða í tónlist sinni, daðra jafnvel við djass (Afsakið hlé) og skreyta hæfilega með aukahljóðfæraleikurum (sem mér skilst að hafi um tíma verið meðlimir sveitarinnar) án þess að glata nokkru af sínu, þannig má heyra smekklegan píanóleik í Hinn mikli veiðimaður og hammond orgel í Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá, sem flestir þekkja í meðförum Jónasar Sig enda samið af honum, það lag ásamt laginu Reddarinn eru þau einu sem ekki eru samin af tríóinu. Síðarnefnda lagið er óður til djöfulsins og inniheldur sérlega skemmtilegan texta.

Annars má segja að einkenni plötunnar séu pælingar sem sumar hverjar hafi svosem alveg heyrst áður í formi gítarfrasa og taktskiptinga, þó er aldrei svo að manni finnst þær beinlínis vera stolnar eða úr sér gengnar en fátt er nýtt undir rokksólinni og fræði rokksins eru sígild, þeir félagar sækja þó áhrif sín víðar að og eru klárlega ágætlega lesnir í rokksögunni og hafa verið duglegir að hlusta samhliða því að spila, og svei mér þá ef austurlenskur andi George Harrison svífur ekki örlítið yfir vötnum í Opinberunamókinu.

Mér dettur ekki í hug að draga út eitthvert eitt lag umfram annað hvað gæði snertir – nefni þó að Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá fékk nokkra spilun í útvarpi í haust og þar heyrist ágætlega krafturinn í bandinu, sem og í laginu Tuddinn. Skýjaborg og Hinn miklu veiðimaður innihalda margslungnar gítar- og trommupælingar sem vert er að leggja hlustir við og bassinn bindur allt smekklega saman.

Lög þyngdaraflsins er algjörlega eðlilegt framhald af fyrri plötu Meistara dauðans og næsta skref á þroskaskeiði þessarar ungu sveitar sem þó er að nálgast áratuginn í aldri, ég sé ekki annað í kortunum en að hún láti áfram til sín taka og stígi næsta skref til að verða ein af þeim stærri í bransanum. Einar Vilberg (jr) tók plötuna upp og hljóðblandaði í stúdíó Hljóðverki og gerir það býsna vel, alltént sándar hún prýðilega. Umslagið er vel heppnað sem og öll umgjörð og mega því allir aðstandendur plötunnar vel við una og ganga stoltir frá borði.