Valgerður Lárusdóttir (1885-1924)

Valgerður Lárusdóttir Briem

Valgerður Lárusdóttir (síðar Valgerður Briem) var ein fyrst söngkvenna á Íslandi og var reyndar frumkvöðull þegar kemur að ýmsum þáttum íslensks tónlistarlífs.

Valgerður fæddist árið 1885 á Eskifirði og ólst þar upp en fluttist til Reykjavíkur þegar hún var á unglingsaldri. Fljótlega varð ljóst að hún var mjög músíkölsk enda var hún af tónlistarættum, afi hennar var Pétur Guðjohnsen, mikill tónlistarfrumkvöðull hér á landi, og meðal tveggja frænda hennar má nefna tónskáldin Emil Thoroddsen og Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

Valgerður fékk berkla um tvítugs aldur og þeir áttu eftir að setja svip sinn á líf hennar upp frá því og leiddu hana að lokum til dauða. Hún var um tvítugt þegar farin að vekja athygli fyrir sönghæfileika en hún söng m.a. á stúkufundum, og fljótlega upp frá því var hún farin að halda sjálfstæða einsöngstónleika fyrir fullu húsi en hún var með allra fyrstu söngkonum hérlendis til að gera það.

Árið 1905 hlaut Valgerður styrk frá alþingi til að nema söng erlendis og næstu þrjú árin nam hún við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Hún hafði stofnað stúlknakór sem kallaðist Gígjan, og stjórnaði honum en einnig stofnaði hún kvennakór innan KFUK árið 1908 eftir heimkomuna frá Danmörku.

Í kjölfar tónlistarnáms síns í Kaupmannahöfn hóf Valgerður að kenna söng, píanó- og orgelleik auk tónfræði, um það leyti gekk hún í hjónaband með Þorsteini Briem presti og urðu þau hjónin mikilvirk í starfi KFUM og K, og stofnaði Valgerður t.d. KFUK-deild í Hafnarfirði. Þau hjónin fluttust norður í Hrafnagil við Eyjafjörð árið 1911 og þar átti Valgerður eftir að halda áfram söngkennslu sinni og öðru tónlistarstarfi, m.a. með stjórnun söngflokks Framtíðarinnar fyrir norðan þrátt fyrir veikindi sín en hún dvaldi stundum sunnan heiða sér til heilsubótar. Hún hélt stöku sinnum tónleika þegar heilsan leyfði og flutti þá m.a. frumsamin lög en Valgerður samdi einnig ljóð, stundum sungu þau hjónin tvísöng en hún lék einnig með á hljóðfæri s.s. harmoníum eða jafnvel gítar.

Þau Valgerður og Þorsteinn fluttu síðar suður í Grímsnesið áður en þau fóru upp á Akranes, síðustu árin dvaldi Valgerður löngum stundum á Vífilsstöðum og mun þar hafa farið á milli sjúkrastofa og skemmt með söng og gítar til að hafa ofan af fyrir samsjúklingum sínum.

Svo fór þó auðvitað að lokum að Valgerður þurfti að játa sig sigraða fyrir berklunum en hún lést vorið 1924 aðeins þrjátíu og níu ára gömul. Hennar var hvarvetna minnst fyrir tónlistarstörf sín sem og reyndar kirkjustarf einnig.