Maíkórinn (1982)

Maíkórinn

Litlar upplýsingar finnast um hinn svokallaða Maíkór en hann var settur saman vorið 1982 og starfaði í nokkra daga í því skyni að syngja inn á eina plötu sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu sendi frá sér um haustið, til að koma í veg fyrir að verkalýðs- og ættjarðarsöngvar féllu í gleymskunnar dá en efnið var valið í samráði við Sigursvein D. Kristinsson. Kórinn innihélt tuttugu og átta söngvara af báðum kynjum og var Sigursveinn Magnússon stjórnandi hans og stjórnaði upptökum á plötunni en Sigurður Rúnar Jónssonar kom einnig að henni og stjórnaði líklega hljómsveit sem annaðist undirleikinn.

Platan hlaut titilinn Við erum fólkið…: Verkalýðsssöngvar og ættjarðarsöngvar, og fékk hún ágæta dóma í Morgunblaðinu. Ítarlegar upplýsingar um lögin og textana fylgdu plötunni og reglulega heyrast spiluð lög af henni í kringum 1. maí ár hvert.

Svo virðist sem kórinn hafi stöku sinnum verið endurvakinn til að syngja á samkomum í kringum verkalýðsdaginn 1. maí og einstök önnur tækifæri.

Efni á plötum