Magnús Einarsson [1] (1848-1934)

Magnús Einarsson

Fáir ef einhverjir hafa haft eins mikil áhrif á tónlistarlíf á einum stað og Magnús Einarsson (oft kallaður Magnús organisti) á Akureyri um lok nítjándu aldarinnar og byrjun þeirrar tuttugustu, hann kenndi söng, stofnaði og stjórnaði kórum og lúðrasveitum, samdi tónlist og gjörbreytti tónlistarlífi bæjarins. Þrátt fyrir það varð hann aldrei efnaður en umfram allt hugsjónamaður.

Magnús fæddist að öllum líkindum sumarið 1848, heimildum ber reyndar ekki alveg saman um fæðingardag hans og Íslendingabók gefur upp annan dag en flestar aðrar heimildir, m.a.s. benda fréttir úr dagblöðum þess tíma að hann sé jafnvel fæddur ári síðar en það skiptir yfirhöfuð ekki öllu máli. Hann fæddist og ólst upp í Köldukinn í Suður-Þingeyjarsýslu í sárri fátækt þar sem litlir möguleikar voru á menntun. Fljótlega var ljóst að Magnús hefði sönghæfileika en ekki lá fyrir að hann legði tónlist fyrir sig, hann starfaði sem sjómaður og verkamaður framan af en um tvítugt auðnaðist honum að læra á orgel í nokkra mánuði hjá sr. Ólafi Pálssyni á Melstað í Miðfirði sem varð honum mikið auðnuspor.

Magnús fluttist til Akureyrar árið 1875 og upp frá því tóku gæfuhjólin að snúast honum í vil, í framhaldi af því fór hann til Reykjavíkur tveimur árum síðar og nam orgel- og fiðluleik ásamt söngfræði hjá Jónasi Helgasyni um tveggja mánaða skeið. Hann gerðist síðan organisti við Akureyrarkirkju það sama ár, 1877 og um svipað leyti stofnaði hann söngfélagið Gígjuna, blandaðan kór á Akureyri með drifkrafti sínum og smitaði út frá sér áhuganum. Hann stjórnaði að auki öðru söngfélagi á Akureyri og því þriðja í Lögmannshlíðarsókn, svo virðist sem þau hafi ekki borið nöfn.

Árið 1881 fluttist Magnús til Húsavíkur þar sem hann starfaði um fimm ára skeið, þar kenndi hann á harmoníum sem hann hafði með sér og notaði við messuhald en það var fyrsta slíka hljóðfærið sem leikið var á við kirkjusöng á Húsavík. Hann kom einnig á fjórrödduðum kirkjusöng á staðnum og stjórnaði að auki söngfélagi unglinga sem söng í nokkur skipti opinberlega.

Árið 1886 kom Magnús aftur til Akureyrar og tók til við fyrri störf sín sem organisti og gegndi því starfi raunar til ársins 1911, þá stjórnaði hann söngfélaginu Gígjunni áfram auk þess að kenna á orgel og söng við Barnaskólann á Akureyri, einnig kenndi hann eitthvað söng við Barnaskólann á Möðruvöllum við utanverðan Eyjafjörð. Um tíma mun hann hafa stjórnað Taflfélagskvartettnum og Prentsmiðjukvartettnum sem síðar ásamt Gígjunni runnu inn í nýjan sameinaðan kór sem Magnús var einn af stofnendum að, Söngfélaginu Geysi (síðar Karlakórnum Geysi) sem var settur á laggirnar árið 1922.

Næstu árin vann Magnús að því að kynna Akureyringum og nærsveitungum tónlist með ýmsum hætti, með kórstjórnun, söngkennslu og organistastarfi sínu, hann hafði einnig frumkvæði að því ásamt öðrum að gefa út sönghefti með lögum úr ýmsum áttum en sjálfur samdi hann lög þótt þau kæmu ekki út á nótum að þessu sinni.

Magnús hafði sótt um styrk til utanfarar til að mennta sig betur í tónlistinni, og það varð úr að hann komst til Kaupmannahafnar veturinn 1893-94. Þegar hann kom heim frá Danmörku hafði hann meðferðis nokkur blásturshljóðfæri sem honum hafði áskotnast og þau nýttust vel í Hornaflokki Akureyrar sem hann hafði stofnað haustið áður en þessi fyrsta akureyska lúðrasveit starfaði ekki lengi.

Magnús á eldri árum

Sem fyrr segir samdi Magnús sjálfur tónlist og árið 1898 var leikrit sett á svið á Akureyri og innihélt það tónlist eftir hann, ýmis lög hans voru jafnframt sungin við ýmis tækifæri norðan heiða en þau virðast hvergi hafa komið út á plötum eftir því sem best verður vitað. Magnús var ennfremur liðtækt ljóðskáld og samdi mörg kvæði, hann var t.a.m. þekktur fyrir lausavísur sínar. Hann skrifaði einnig um tónlist og birtust nokkrar greinar eftir hann í tímaritinu Gjallarhorni árin 1904 og 05.

Árið 1900 var Söngfélagið Hekla stofnað og varð Magnús stjórnandi þess. Undir hans stjórn fór kórinn í söngferðalag til Noregs haustið 1905, fyrstur íslenskra kóra og hlaut hann mikla athygli fyrir enda þótti þetta mikið afrek. Ferðin krafðist mikils undirbúnings og fór Magnús fyrst utan til að undirbúa jarðveginn, þá voru einnig saumaðir búningar á kórmeðlimi við þetta sama tækifæri og það eitt og sér þótti fréttaefni. Kórinn hélt aukinheldur marga tónleika á Akureyri og nærsveitum og náði sönglíf bæjarins ákveðnu hámarki á þeim tíma og var í miklum blóma undir stjórn Magnúsar. Sá kór starfaði til ársins 1907 en Magnús var gerður að heiðursfélaga hans.

Það sama ár, 1907 var ný lúðrasveit stofnuð undir stjórn Magnúsar en sú gekk undir nafninu Lúðrasveitin Hekla (sama nafnið og kórinn hafði gengið undir) og starfaði hún allt fram á fjórða áratug aldarinnar en Lúðrasveit Akureyrar var síðan stofnuð upp úr henni. Magnús lék líklega sjálfur á kornett í sveitinni.

Magnús var þarna nokkuð farinn að eldast en hann kenndi söng við barnaskólann allt til ársins 1915 en þá voru honum veitt heiðurslaun fyrir framlag sitt til sönglistarinnar á Akureyri. Um svipað leyti hætti hann að stjórna lúðrasveitinni. Hann hafði byrjað að æfa kór í Glæsibæjarhreppi árið 1910 og gekk hann undir nafninu Söngfélagið Geysir, ekki liggur fyrir hversu lengi hann stjórnaði þeim kór. Á árunum 1919 til 22 stjórnaði hann ennþá kór sem líkast til var nafnlaus – þá var Magnús á áttræðis aldri.

Magnús lést árið 1934 og var hans minnst með margvíslegum hætti. Sama ár var Söngfélagið Hekla, samband norðlenskra kóra stofnað í minningu hans, sönglagahefti með lögum hans var gefið út og sungið var minningarljóð um hann á söngmóti Heklu þegar níutíu ára fæðingarafmælis hans var minnst fáeinum árum síðar. Áður hafði hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir framlag sitt til sönglistarinnar á Akureyri, hann hafði t.d. hlotið fálkaorðuna árið 1931 og á 75 ára afmælinu hafði hann verið gerður að heiðursfélaga Lúðrasveitar Akureyrar.

Þrátt fyrir að Magnúsi verði sjálfsagt um alla tíð minnst sem mikilvægum frumkvöðli við akureyskt tónlistar- og menningarlíf með aðkomu sinni að kórum og lúðrasveitum bæjarins auk kennslu, hlaut hann sjálfur lítil laun fyrir ævistarf sitt en þeim mun meira þakklæti.